Rúv greinir frá þessu í frétt sinni.
Upp úr hádegi í gær barst lögreglunni á Austurlandi tilkynning um alvarlegt slys á hafnarsvæði í Gleðivík á Djúpavogi. Þar hafði karlmaður, erlendur ferðamaður á sjötugsaldri, hlotið áverka eftir að hafa orðið fyrir lyftara og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi. Þegar Vísir hafði samband við lögregluna á Austurlandi í morgun vildu þau ekki tjá sig um málið.
Öryggiskaðall ekki til staðar
Listaverkið Eggin í Gleðivík eftir Sigurð Guðmundsson sem er staðsett á höfninni í Gleðivík er eitt helsta aðdráttarafl Djúpavogs. Listaverkið samanstendur af eftirmyndum 34 fuglseggja sem eru slípaðar í grjót og var vígt árið 2009. Ferðamannastraumur gangandi vegfarenda út í Gleðivík að verkinu er nokkuð mikill og til að komast að eggjunum þarf að fara framhjá iðnaðarsvæði niðri við höfnina.
Hafnarvörður greindi frá því við blaðamann að í fyrra hefði verið strengdur öryggiskaðall meðfram ströndinni til að aðskilja gangandi og akandi umferð. Þess utan vildi hann ekki tjá sig neitt um málið og vísaði til lögreglunnar.
Í frétt Rúv um málið er haft eftir heimamönnum að öryggiskaðallinn hafi ekki verið til staðar þegar banaslysið átti sér stað í gær. Ástæðan fyrir því ku vera að hann hafði verið tekinn niður vegna lagnavinnu sem tengdist framkvæmdum við nýju frauðkassaverksmiðjuna.