Fótbolti

Eiður Smári nýr þjálfari FH

Árni Jóhannsson skrifar
Valdimar Svavarsson formaður knattspyrnudeildar FH og Eiður Smári handsala samstarfið
Valdimar Svavarsson formaður knattspyrnudeildar FH og Eiður Smári handsala samstarfið FH

Eiður Smári Guðjohnsen hefur samið við FH um að taka við þjálfun liðsins. Þetta er í annað sinn sem Eiður kemur að þjálfun liðsins en samningur hans gildir út tímabilið 2024.

Í fréttatilkynningu frá FH sem birtist fyrir skömmu síðan, kemur fram að miklar væntingar séu bundnar við Eið Smára sem þjálfara enda skilaði hann af sér góðu verki síðast þegar hann var í þjálfarateyminu ásamt Loga Ólafssyni. Undir þeirra stjórn náði liðið öðru sæti í deildinni.

Tekið er fram að liðið hafi ekki staðið undir væntingum hingað til í Bestu deild karla en liðið er í níunda sæti og hefur það einungis unnið tvo leiki af níu. Í síðustu umferð gerði liðið jafntefli við Leikni á heimavelli og var það kornið sem fyllti mælinn fyrir stjórn FH sem sagði Ólafi Jóhannessyni upp skömmu eftir að leik lauk.

Eins og áður segir gildir samningur Eiðs út tímabilið 2024 eða í tvö ár en ekki er tekið fram hver aðstoðar Eið en Vísir velti upp spurningunni hvort Sigurvin Ólafsson yrði Eiði til aðstoðar. Eiður fær ekki langan tíma til að undirbúa sig fyrir fyrsta leik en FH fer upp á Skipaskaga á þriðjudaginn næsta og etur kappi við ÍA í 10. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu.


Tengdar fréttir

Eru Eiður Smári og Sigurvin Ólafsson að taka við FH?

Heimildir Vísis herma að Eiður Smári Guðjohnsen muni taka við þjálfarastöðunni hjá FH eftir að Ólafur Jóhannesson lét af störfum í síðustu viku. Honum til aðstoðar verður Sigurvin Ólafsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×