Fótbolti

Ræddu að breyta inn­köstum í inn­spörk

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hver veit nema innköst muni heyra sögunni til þegar fram líða stundir.
Hver veit nema innköst muni heyra sögunni til þegar fram líða stundir. Harriet Lander/Getty Images

Alþjóðaknattspyrnuráðið, IFAB, hittist í Doha – höfuðborg Katar – á mánudag. Þar var meðal annars rætt að breyta innköstum í innspörk. 

Nokkrir hlutir voru ræddir á fundi IFAB í Doha og sumir voru samþykktir. Þar á meðal að lið megi nú gera fimm skiptingar í einum og sama leiknum. Það var tímabundið leyft vegna Covid-19 en hefur nú verið sett í lög leiksins. 

Arsène Wenger, fyrrverandi þjálfari enska knattspyrnuliðsins Arsenal, starfar sem yfirmaður þróunar hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, í dag. Undir lok síðasta árs lagði Wenger fram nokkrar tillögur og var hugmyndin um að breyta innköstum í innspörk meðal þeirra.

Wenger var ekki mikill aðdáandi innkasta er hann þjálfaði í ensku úrvalsdeildinni en hann þoldi ekki að mæta Stoke City undir stjórn Tony Pulis þar sem löngum innköstum var beitt við hvert tækifæri. Ræddi Pulis þetta í hlaðvarpi framherjans fyrrverandi Peter Crouch fyrir ekki svo löngu síðan.

Innköst hafa verið hluti af knattspyrnu síðan 1863 þegar enska knattspyrnusambandið bannaði leikmönnum að sparka knettinum inn á völlinn eftir að hann fór út af.

Wenger telur að innköst og aukaspyrnur séu mesti tímaþjófur fótboltans í dag og ef gera á leikinn hraðari eða skemmtilegri þurfa þessir hlutir að víkja eða gangast undir mikla breytingu. Hann vill einnig gera þá breytingu að lið hafi aðeins fimm sekúndur til að sparka boltanum inn á nýjan leik. 

„En það verður að vera prófað og samþykkt af IFAB,“ sagði Wenger um hugmyndina á sínum tíma. Hún er nú komin á borð Alþjóðaknattspyrnuráðsins og aldrei að vita nema Wenger fái ósk sína uppfyllta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×