Brasilískir herforingjar hafa að undanförnu sjálfir lýst yfir áhyggjum varðandi heilindi kosninga þar, þrátt fyrir litlar vísbendingar um kosningasvindl eða svik í Brasilíu, samkvæmt frétt New York Times.
NYT segir að leiðtogar hersins hafi bent kjörstjórnum á galla sem þeir sjái á kosningakerfi Brasilíu og að þeir hafi fengið sæti í gagnsæisnefnd sem stofnuð hafi verið vegna þeirra áhyggja sem Bolsonaro hafi vakið.
Forsetinn þykir vera að feta slóðir Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem hefur ítrkað logið því að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosningunum 2020. Bolsonaro hefur reyndar lengi verið kallaður hinn brasilíski Trump.
Vill að herinn telji líka atkvæði
Bolsonaro sjálfur, sem er fyrrverandi yfirmaður í hernum og hefur skipað fjölmarga herforingja í ríkisstjórn sína, hefur jafnvel stungið upp á því að herinn eigi að framkvæma eigin atkvæðatalningu.
Hann hefur einnig sagt að hann muni mögulega ekki viðurkenna tap í kosningunum.
„Ný tegund þjófa hefur litið dagsins ljós sem vilja stela frelsi okkar,“ sagði hann fyrr í mánuðinum. „Ef það verður nauðsynlegt munum við fara í stríð.“
NYT segir tvo herforingja í ríkisstjórn Bolsonaros hafa um árabil reynt að hjálpa honum við að finna vísbendingar um kosningasvik en án árangurs.
Lula leiðir í könnunum
Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu og leiðtogi vinstrimanna, hefur að undanförnu leitt í könnunum í Brasilíu. Könnun sem opinberuð var í síðustu viku sýndi fram á meira fylgi Lula.
Lula mælist með 46 prósent fylgi í fyrri umferð í nýrri skoðanakönnun sem var birt með, sextán prósentustigum meira en Bolsonaro, næsti keppinautur hans. Í seinni umferð þar sem kosið væri á milli þeirra tveggja mælist Lula með 54 prósent gegn 32 prósent Bolsonaro.
Biden varaði Bolsonaro við
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ræddi við Bolsonaro á fundi ráðamanna Ameríkuríkja í Los Angeles í síðustu viku. Þar mun Biden hafa varað Bolsonaro við og sagt honum að virða hið lýðræðislega ferli. Bolsonar mun hafa svarað á þá leið að hann myndi að endingu láta af völdum á lýðræðislegan máta, hann vildi þó tryggja heilindi kosninganna í október.