Körfubolti

Yfirlýsing frá KR: Harma að formaður KKÍ „ræði einkamál félaganna og sambandsins“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stjórn körfuknattleiksdeildar KR lýsir yfir ósætti sínu með framferði formannsins.
Stjórn körfuknattleiksdeildar KR lýsir yfir ósætti sínu með framferði formannsins. vísir/bára

Körfuknattleiksdeild KR sendi í dag frá sér yfirlýsingu vegna fréttaflutnings af skuld félagsins við KKÍ. Þar er nafntogun félagsins af hálfu formanns KKÍ hörmuð.

Greint var frá því á Vísi fyrr í dag að skipulagning á Íslandsmótum í körfubolta hefðu lítillega tafist þar sem KR var veittur frestur á að greiða skráningargjöld fyrir meistaraflokka sína í karla- og kvennaflokki.

Ástæðan var sú að KR var í skuld við KKÍ og félögum er ekki heimilt að skrá sig til keppni meðan slíkt skuld er ógreidd til sambandsins. Fresturinn til skráningar rann út 31. maí síðastliðinn en KR gerði skuldina upp, auk þess að greiða skráningargjaldið í gær og málið því afgreitt.

KR þurfti aftur á móti að bera meiri kostnað en önnur félög vegna seinagangsins, í samræmi við lög KKÍ, sem segja til um að lið sem greiði seint borgi tvöfalt. KR þurfti því að borga 880 þúsund krónur í stað 440 þúsund fyrir liðin sín tvö.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, staðfesti við Vísi fyrr í dag að KR væri félagið sem um ræðir. Þetta eru KR-ingar ósáttir við og gagnrýna í yfirlýsingu sem þeir sendu síðdegis.

„Körfuknattleiksdeild KR harmar ummæli formanns KKÍ í viðtali á visir.is í dag þar sem hann nafngreinir KR vegna tafa á greiðslum til Körfuknattleikssamband Íslands,“ segir í yfirlýsingunni þar sem segir jafnframt að KR-ingar muni koma athugasemdum sínum á framfæri við formanninn persónulega, frekar en að gera það í gegnum fjölmiðla:

„Körfuknattleiksdeild KR hefur ýmislegt um það að segja að formaður KKÍ breyti útaf venjum sambandsins og ræði einkamál félaganna og sambandsins á opinberum vettvangi. Deildin hyggst þó ekki elta formanninn á þeirri vegferð og hefur komið athugasemdum sínum á framfæri við KKÍ með hefðbundnum hætti,“ segir í yfirlýsingunni sem má sjá í heild sinni að neðan.

Yfirlýsing Körfuknattleiksdeildar KR

Varðandi fréttaflutning um skuld Körfuknattleiksdeildar KR við KKÍ.

Körfuknattleiksdeild KR harmar ummæli formanns KKÍ í viðtali á visir.is í dag þar sem hann nafngreinir KR vegna tafa á greiðslum til Körfuknattleikssamband Íslands. Eins og vitað er þá hefur Covid faraldurinn haft mikil áhrif á íþróttaheyfinguna eins og margt annað í hagkerfinu og er KKD KR þar síst undanskilin. Róðurinn hefur á stundum verið þungur en það er bjart framundan nú þegar faraldurinn er yfirstaðin.

Rétt er að ítreka það líkt og formaðurinn tekur fram að skuldin sem um ræðir hefur verið greidd að fullu. Körfuknattleiksdeild KR hefur ýmislegt um það að segja að formaður KKÍ breyti útaf venjum sambandsins og ræði einkamál félaganna og sambandsins á opinberum vettvangi. Deildin hyggst þó ekki elta formanninn á þeirri vegferð og hefur komið athugasemdum sínum á framfæri við KKÍ með hefðbundnum hætti.

Virðingarfyllst

Stjórn KKD KR




Fleiri fréttir

Sjá meira


×