Klinkið

Stefán Broddi ráðinn sveitarstjóri Borgarbyggðar

Ritstjórn Innherja skrifar
Stefán Broddi Guðjónsson mun taka við starfinu 1. júlí næstkomandi. Hann hefur undanfarin tíu ár starfað hjá Arion banka.
Stefán Broddi Guðjónsson mun taka við starfinu 1. júlí næstkomandi. Hann hefur undanfarin tíu ár starfað hjá Arion banka.

Stefán Broddi Guðjónsson, sem hefur starfað hjá Arion banka undanfarin tíu ár, hefur verið ráðinn í starf sveitarstjóra í Borgarbyggð af nýjum meirihluta. Áætlað er hann taki við starfinu 1. júlí næstkomandi.

Skessuhorn greindi fyrst frá ráðningunni en Stefán Broddi, sem er með BA gráðu í stjórnmálafræði og próf í verðbréfaviðskiptum, hefur frá árinu 2019 verið sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arion banka. Þar áður stýrði hann greiningardeild bankans um nokkurra ára skeið.

Stefán Broddi er uppalinn í Borgarnesi og bjó þar fram á þrítugsaldurinn. „Það reyndist mér afar gott veganesti út í lífið að alast upp í Borgarnesi. Ég er sveitarstjórn og íbúum afar þakklátur fyrir tækifærið og mun leggja mig allan fram um að standa mig. Tækifærin í Borgarbyggð eru óþrjótandi,“ er haft eftir honum í frétt Skessuhorns.

Framsóknarflokkurinn fékk hreinan meirihluta í síðustu sveitarstjórnarkosningum og ákvað að Þórdís Sif Sigurðardóttir, sem hefur verið sveitarstjóri í Borgarbyggð, yrði ekki endurráðin.

Áður en Stefán Broddi tók til starfa í Arion banka var hann hjá Straumi fjárfestingabanka í markaðsviðskiptum og sem forstöðumaður eigin viðskipta bankans á Íslandi á árunum 2008 til 2011. Þá var hann fjárfestingastjóri Exista 2006 til 2008 auk þess að hafa starfað áður sem sérfræðingur í greiningum hjá Íslandsbanka og sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu um skeið.


Tengdar fréttir






×