Fótbolti

Albanía án sinna helstu framherja í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Armando Broja er frá, líkt og Rey Manaj.
Armando Broja er frá, líkt og Rey Manaj. Robin Jones/Getty Images

Armando Broja, framherji Chelsea á Englandi, sem lék á láni hjá Southampton í vetur mun ekki spila með Albaníu á Laugardalsvelli í kvöld. Broja smitaðist af Covid-19 í aðdraganda leiksins.

Hinn tvítugi Broja vakti athygli í liði Southampton í vetur og skoraði sex mörk í ensku úrvalsdeildinni. Þar með varð hann fyrsti Albaninn til að skora í keppninni.

Broja smitaðist hins vegar af Covid-19 í síðustu viku og var því ekki hluti af albanska landsliðshópnum sem kom til Íslands í gær. Hann er annar framherjinn sem hrekkur úr lestinni hjá albanska liðinu á eftir Rey Manaj, leikmanni Barcelona á Spáni, sem hefur verið fastamaður í framlínu Albana síðustu ár.

Myrto Uzuni, kantmaður Granada, er þá einnig frá vegna meiðsla.

Þeir reynslumiklu Sokol Cikalleshi og Bekim Balaj gætu barist um framherjastöðu Albaníu í kvöld en þá eru Taulant Seferi, sem leikur í heimalandinu, og Giacomo Vrioni, sem leikur með Tirol í Austurríki, einnig í hópnum.

Leikur Íslands og Albaníu hefst klukkan 18:45 á Laugardalsvelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×