Fótbolti

Arnar Þór: Verðum að virða stigið sem við fengum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, var svekktur en á sama tíma sáttur við stigið. 
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, var svekktur en á sama tíma sáttur við stigið.  Vísir/Getty

Arnar Þór Viðarsson sá glasið frekar hálffullt en tómt þegar hann ræddi við Viaplay eftir jafntefli Íslands og Ísraels í B-deild Þjóðadeildarinnar í Haifa í kvöld.

„Fyrst og fremst fannst mér leikskipulagið sem við settum upp fyrir þennan virka afar vel. Þeir eru með snögga og léttleikandi leikmenn sem erfitt er að eiga við. Við gerðum það hins vegar heilt yfir vel að mínu mati," sagði Arnar Þór. 

„Það er frábært að koma til baka eftir að hafa lent undir og við áttum góða kafla bæði undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun seinni hálfleiks.

Við fengum bæði færi og upphlaup til þess að skora fleiri mörk, til að mynda Þórir Jóhann. Bæði ég og leikmenn liðsins erum svekktir með að hafa ekki náð í sigur en þegar litið er til þess að þeir fengu góð færi undir lok leiksins held ég að við verðum að virða stigið," sagði hann þar að auki. 

„Brynjar Ingi meiddist á kálfa í fyrri hálfleik og þurfti að fara meiddur af velli í hálfleik. Það sást í fyrra markinu að Brynjar Ingi var ekki alveg heill og þar af leiðandi tókum við hann af velli," sagði Arnar Þór um ástæðu þess að Brynjar Ingi Bjarnason þurfti að fara af velli í hálfleik. 

Það er skammt stórra högga á milli hjá íslenska liðinu en liðið fær Albaníu í heimsókn í Laugardalinn á mánudaginn kemur. 

„Við erum með stóran hóp af leikmönnum á svipuðum stað á ferlinum og með svipaða styrkleika. Það getur vel verið að við sjáum ný nöfn í byrjunarliðinu þegar við mætum Albaníu á mánudaginn kemur," sagði þjálfarinn inntur að því hvort að breytinga væri að vænta á liðsskipan Íslands á milli leikja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×