Fótbolti

Guð­mundur ekki á­fram í Ála­borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur í leik með Álaborg.
Guðmundur í leik með Álaborg. Vefsíða Álaborgar

Landsliðsmaðurinn Guðmundur Þórarinsson mun ekki leika áfram með danska úrvalsdeildarliðinu AaB frá Álaborg þar sem félagið hefur ákveðið að framlengja ekki samning hans.

Guðmundur samdi við Álaborgar-liðið í febrúar á þessu ári um að leika með því út leiktíðina með möguleika á framlengingu. Félagið hefur nú ákveðið að leyfa þessum þrítuga leikmanni að leita á önnur mið í sumar. Alls lék hann sex leiki fyrir félagið.

„Guðmundur hefur spilað vel þegar hann hefur verið leikfær en hefur verið óheppinn með meiðsli. Hann hefur ekki náð að spila marga leiki í röð og það er ástæðan fyrir því að við ákváðum að framlengja ekki samning hans,“ sagði André Olsen, yfirmaður íþróttamála hjá AaB.

Olsen bætti svo við: „Það fer ekki á milli mála að Guðmundur er hæfileikaríkur leikmaður með marga góða eiginleika og við óskum honum alls hins besta í framtíðinni.“

Guðmundur hefur komið víða við á ferli sínum til þessa en hann hefur leikið í efstu deild í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ásamt því leika í MLS-deildinni í Bandaríkjunum með New York City. Varð hann meistari með liðinu í desember 2021.

Þá á Guðmundur 12 A-landsleiki að baki sem og 32 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann var ekki valinn í hóp A-landsliðsins fyrir komandi leiki gegn Ísrael, Albaníu og San Marinó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×