Innlent

Vopna­leit og vega­bréfa­eftir­lit á Skarfa­bakka

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Gunnar Tryggvason er starfandi hafnarstjóri Faxaflóahafna.
Gunnar Tryggvason er starfandi hafnarstjóri Faxaflóahafna. Vísir/Arnar

Aðstöðu sem svipar til flugstöðvar hefur verið komið fyrir á Skarfabakka. Ástæðan er sú að farþegaskipti verða á skemmtiferðaskipum sem kallar á vopnaleit og vegabréfaeftirlit. Von er á 200 þúsund farþegum til landsins með skemmtiferðaskipum í sumar.

Stærðarinnar tjöldum hefur verið komið fyrir við Skarfabakka þar sem skemmtiferðaskip leggja að bryggju. Ástæðan er sú að nú fara fram farþegaskipti í Reykjavík.

„Hér er að verða eðlisbreyting. Við sjáum að þessi skipafélög vilja núna gera út frá Íslandi, Reykjavíkurhöfn í auknum mæli. Við höfum séð þetta örlítið áður en þetta er í auknum mæli núna. Það verður til þess að farþegaskipti fara þá hér fram,“ sagði Gunnar Tryggvason, starfandi hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Farþegaskipti kalla á vopnaleit, vegabréfaeftirlit og samstarf við tollyfirvöld. Mikill ávinningur fylgir farþegaskiptum þar sem búist er við að nýting flugs og gistingar hér á landi aukist.

„Og farþegarnir skilja þá meira eftir í samfélaginu. Þeir koma hugsanlega deginum áður en þeir fara um borð og eru jafnvel einn dag til viðbótar áður en þeir fara heim eftir ferðina.“

Tjöldin voru sett upp fyrir þremur vikum síðan og búnaðurinn í síðustu viku.

„Við höfum í hyggju að byggja eins konar flugstöð eða „terminal“ fyrir þessa þjónustu til frambúðar. Við verðum svona næstu tvö árin og fáum svo reynsluna og sjáum hvernig við viljum hafa þetta til lengri tíma.“

Von er á 200 skemmtiferðaskipum í sumar og ekkert lát á bókunum.

„Bókanir sína að þetta verður svipað og síðasta ár fyrir covid 2019. Tæplega 200 skip eru bókuð núna og 200 þúsund farþegar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×