Erlent

Líkur á vinstri­sinnuðum for­­seta í Kólumbíu í fyrsta sinn frá lýð­veldis­­stofnun

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Gustavo Petro fagnar niðurstöðum kosninganna á sunnudag við hlið meðframbjóðanda síns, Franciu Marquez
Gustavo Petro fagnar niðurstöðum kosninganna á sunnudag við hlið meðframbjóðanda síns, Franciu Marquez Getty

Seinni umferð forsetakosninga Kólumbíu mun fara fram 19. júní næstkomandi, þar sem enginn frambjóðenda hlaut meira en helming atkvæða í fyrri umferð sem fór fram á sunnudag. Gustavo Petro, vinstrisinnaður fyrrverandi borgarstjóri höfuðborgarinnar Bogotá hlaut þar 40 prósent atkvæða og mun mæta Rodolfo Hernandez, íhaldsömum viðskiptafrömuði, í einvíginu.

Vaxandi óánægja með aukinn ójöfnuð og verðbólgu hefur sett svip sinn á kosningarnar en um það bil fjórir af hverjum tíu Kólumbíumönnum býr við fátækt og faraldurinn jók enn á vandann. Aukinheldur hefur atvinnuleysi aukist og um sjötti hver íbúi er án atvinnu í stórborgum landsins en Kólumbía telur um 50 milljón íbúa.

Petro, sem hafði verið talinn sigurstranglegastur í könnunum mánuðina fyrir kosningar, varð annar í forsetakosningum árið 2018. Hann hefur lofað miklum umbótum í efnahagsmálum, breytinum á skattkerfinu sem og nýjum aðferðum í endalausri baráttu landsins við eiturlyfjahringi og aðra glæpahópa.

Sigri Petro kosningarnar í júni, yrði það í fyrsta sinn frá lýðveldisstofnun Kolumbíu sem að vinstrisinnaður forseti tæki við völdum þar í landi. Meðframbjóðandi Petró, Francia Marquez, er þar að auki fyrsta svarta konan sem býður sig fram til varaforseta í kosningum landsins.

„Ég trúi á Kólumbíu, þann friðsæla draum, fagra land og jafna, fullt af vinnu og visku. Nú er tíminn til að láta drauma rætast.“ skrifaði Petro í stuttu ávarpi sem birt var á samfélagsmiðlum hans á kosningamorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×