Arctic Adventures var rekið með 669 milljóna króna tapi á síðasta ári samanborið við 1.157 milljóna króna tap á árinu 2020. Heimsfaraldurinn hefur haft verulega neikvæð áhrif á rekstur félagsins en um mitt síðasta ár byrjuðu ferðamenn að streyma aftur til landsins.
„Nú er ljóst að ferðaþjónusta á Íslandi er að taka hratt við sér,“ segir í skýrslu stjórnar. „Útlit er fyrir að starfsemin sé að færast í eðlilegra horf samanber það sem var fyrir Covid.
Samhliða því að starfsemin hófst að nýju fjölgaði starfsmönnum milli ára en í árslok 2021 störfuðu 129 starfsmenn í samstæðu Arctic Adventures í 113 stöðugildum samanborið við 24 stöðugildi í árslok 2020.
Á árinu voru nokkrar rekstrareiningar, svo sem flúðasigling á Hvítá, snjósleðarekstur í Skálpa á Langjökli og hvalaskoðun á Dalvík. En á móti eignaðist Arctic Adventures hluti í Amazing Tours og á þessu ári ákvað stjórn fyrirtækisins að nýta sér forkaupsrétt að hlutum í Raufarhóli, sem rekur Raufarhólshelli. Eftir kaupin verður eign Arctic Adventures í Raufarhóli 80 prósent.
Fjárfestingasjóðurinn Icelandic Tourism Fund, sem er í stýringu Landsbréfa, er stærsti hluthafi Arctic Adventures með rúmlega 20 prósenta hlut. Aðrir hluthafar með stærri en 10 prósenta hlut eru Wings Capital, sem er í eigu Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar, Umbrella, sem er í eigu feðganna Kára og Steinars Björnssona og Björns Hróarssonar, fyrrverandi eiganda Extreme Iceland, og loks Freyja, framtakssjóður á vegum Kviku eignastýringu.
Undir lok síðasta árs var Gréta María Grétarsdóttir ráðin forstjóri Arctic Adventures og er stefnt er að því að skrá félagið á markað. Fram kemur í ársreikninginum að stjórn félagsins hafi samþykkti að nýta heimild hlutahafafundar til að gera starfstengda kaupréttaráætlun við ákveðna starfsmenn. Samkvæmt henni geta starfsmenn nýtt kauprétt sinn í einu lagi á árunum 2024-2026. Kaupréttargengi samkvæmt samningum var ákveðið 1-1,6 og fjöldi hluta er 65 milljónir.