Innherji

Tekjur Arctic Adventures jukust um 50 prósent milli ára

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures. 
Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures. 

Rekstrartekjur Arctic Adventures, sem er stærsta afþreyingarfyrirtækið í íslenskri ferðaþjónustu, námu rúmlega 2,3 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 50 prósent milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Arctic Adventures var rekið með 669 milljóna króna tapi á síðasta ári samanborið við 1.157 milljóna króna tap á árinu 2020. Heimsfaraldurinn hefur haft verulega neikvæð áhrif á rekstur félagsins en um mitt síðasta ár byrjuðu ferðamenn að streyma aftur til landsins.

„Nú er ljóst að ferðaþjónusta á Íslandi er að taka hratt við sér,“ segir í skýrslu stjórnar. „Útlit er fyrir að starfsemin sé að færast í eðlilegra horf samanber það sem var fyrir Covid.

Samhliða því að starfsemin hófst að nýju fjölgaði starfsmönnum milli ára en í árslok 2021 störfuðu 129 starfsmenn í samstæðu Arctic Adventures í 113 stöðugildum samanborið við 24 stöðugildi í árslok 2020.

Á árinu voru nokkrar rekstrareiningar, svo sem flúðasigling á Hvítá, snjósleðarekstur í Skálpa á Langjökli og hvalaskoðun á Dalvík. En á móti eignaðist Arctic Adventures hluti í Amazing Tours og á þessu ári ákvað stjórn fyrirtækisins að nýta sér forkaupsrétt að hlutum í Raufarhóli, sem rekur Raufarhólshelli. Eftir kaupin verður eign Arctic Adventures í Raufarhóli 80 prósent.

Fjárfestingasjóðurinn Icelandic Tourism Fund, sem er í stýringu Landsbréfa, er stærsti hluthafi Arctic Adventures með rúmlega 20 prósenta hlut. Aðrir hluthafar með stærri en 10 prósenta hlut eru Wings Capital, sem er í eigu Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar, Umbrella, sem er í eigu feðganna Kára og Steinars Björnssona og Björns Hróarssonar, fyrrverandi eiganda Extreme Iceland, og loks Freyja, framtakssjóður á vegum Kviku eignastýringu.

Undir lok síðasta árs var Gréta María Grétarsdóttir ráðin forstjóri Arctic Adventures og er stefnt er að því að skrá félagið á markað. Fram kemur í ársreikninginum að stjórn félagsins hafi samþykkti að nýta heimild hlutahafafundar til að gera starfstengda kaupréttaráætlun við ákveðna starfsmenn. Samkvæmt henni geta starfsmenn nýtt kauprétt sinn í einu lagi á árunum 2024-2026. Kaupréttargengi samkvæmt samningum var ákveðið 1-1,6 og fjöldi hluta er 65 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×