Menning

„Ótrúlega sterkur hópur sem vinnur kraftaverk á örfáum dögum“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Það er mikið um að vera á útskriftarsýningu LHÍ, Verandi vera, á Kjarvalsstöðum.
Það er mikið um að vera á útskriftarsýningu LHÍ, Verandi vera, á Kjarvalsstöðum. Owen Fiene

Útskriftarnemar við myndlistar, hönnunar og arkitektúrs deild Listaháskóla Íslands standa fyrir samsýningu á Kjarvalsstöðum um þessar mundir. Sýningin ber nafnið Verandi vera, er opin öllum og stendur til næstkomandi sunnudags, 29. maí.

Hildigunnur Birgisdóttir er sýningastjóri myndlistarhluta sýningarinnar og þær María Kristín Jónsdóttir og Sara Jónsdóttir eru sýningarstjórar hönnunar og arkítektúrs. Blaðamaður hafði samband við þær og fékk að heyra nánar frá ferlinu á bak við sýninguna.

Ýmis listform njóta sín á sýningunni Verandi vera.Owen Fiene

Allir mjög stoltir

„Við sýningastjórarnir hittumst og ræddum saman í aðdraganda sýningarinnar og vorum sammála um að tíðarandinn hjá nemendum sé mildur en áríðandi og að mörg verkana leiti inn á við, og beina jafnvel áhrifum sínum í innra líf áhorfandans, þar sem tilveran er sett í samhengi. Þannig kom titill sýningarinnar til: Verandi vera,“ segir Hildigunnur. Samkvæmt henni gekk furðu vel að setja upp sýningu þessara ólíku myndlistarmanna.

Sýningarstjórar segja tíðarandinn hjá nemendum mildan en áríðandi.Owen Fiene

„Þótt þau séu ólík þá má greina ákveðinn samhljóm og þroska hjá hópnum. Hópurinn er líka búinn að vera samferða síðustu ár og þau þekkja þarfir hvers annars og hafa tekið tillit til þeirra og jafnvel stungið upp á að ákveðin verk tali vel saman. Ég er svo heppin að hafa kennt þessum hópi áður og því búin að fylgjast með þeim þessi ár sem þau hafa dvalið í skólanum. Undirbúningur sýningarinnar hófst fyrir alvöru í byrjun vorannar. Sýningin byrjar að taka á sig mynd í apríl og síðustu dagana í uppsetningu verður svo sýningin endanlega til. 

Að sýningunni kemur ótrúlega sterkur hópur nemenda, kennara, tæknifólks, vina og vandamanna sem vinna kraftaverk á örfáum dögum. Það eru allir mjög stoltir af sýningunni.“

Áríðandi mildi

Í sýningartexta Hildigunnar segir meðal annars að sýningin gefi áhorfendum aðgang að hugarheimi þeirra heim hafa dvalið í Listaháskólanum síðustu þrjú ár að rækta sín hugðarefni við krefjandi aðstæður.

„Ávextirnir eru eftir því áríðandi. Þeir birtast okkur sem gátt inn í ný sjónarhorn sem munu leiða okkur áfram veginn, inn í óskrifaða en skilyrta framtíðina. Þetta samfélag nemenda er tillitsamt og því er annt um þig, kæri áhorfandi. Þau vilja okkur fyrir bestu. 

Vinsamlegast ekki missa af áríðandi mildi þeirra.“
Útskriftarnemendur LHÍ sýna afrakstur síðustu þriggja ára á Kjarvalsstöðum.Owen Fiene

Hlý og falleg orka

Sara Jónsdóttir og María Kristín Jónsdóttir, sýningarstjórar útskriftarsýningar BA nema í hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, segja ferlið hafa gengið virkilega vel.

„Það var einstaklega ánægjulegt og gefandi að vinna með og kynnast þessum ljúfa hópi á lokametrum náms þeirra við Listaháskólann. Frá fyrstu stundu uppsetningar sýningarinnar mætti okkur hlý og falleg orka sem fylgdi okkur í gegnum allt ferlið. Eftir þessi kynni getum við einlægt sagt að við hlökkum til að hitta þau aftur og þá sem kollega okkar í hönnunarbransanum.“

Listinni fylgir gjarnan líf og fjör.Owen Fiene

Leiðsögn sýningarstjóra

Sýningin er sem áður segir opin öllum og ekkert kostar inn.

„Við hvetjum fólk eindregið til þess að fara á útskriftarsýninguna á Kjarvalsstöðum og kynna sér verk næstu kynslóðar hönnuða og arkitekta – sem sannarlega spanna vítt svið og snerta á ólíkum flötum lífsins, allt frá brjóstamjólk, rafmyntum og drasl skúffum yfir í vistþorp og storm tilfinninga svo eitthvað sé nefnt. 

Það er líka upplagt að koma á Uppstigningardag, fimmtudaginn 26. maí kl. 20:30, þegar við þrjár, sýningarstjórar sýningarinnar, verðum með leiðsögn um safnið,“ 

segja Sara og María Kristín að lokum.

Gestir virða fyrir sér lokaverkefni nemanda um brjóstamjólk.Owen Fiene

Nemendur af eftirfarandi brautum sýna á Kjarvalsstöðum:

Myndlist (Vestursalur, Vesturgangur og útisvæði)

Arkitektúr, Fatahönnun og Grafísk hönnun (Austursalur)

Vöruhönnun (Austurgangur)

Sýningin er sem áður segir opin öllum og ekkert kostar inn.


Tengdar fréttir

Út­skriftar­sýning fata­hönnunar­nema LHÍ

Sýnt verður frá útskriftarsýningu fatahönnunarnema frá Listaháskóla Íslands í beinni útsendingu hér á Vísi klukkan 19:30. Vegna heimsfaraldurs var brugðið á það ráð að hafa sýninguna með óhefðbundnum hætti en þetta verður blanda af myndböndum og tískusýningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×