Fótbolti

Freyr stýrði Lyng­by upp í úr­vals­deild | Aron lagði upp er Hor­sens fór einnig upp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fögnuður Lyngby var ósvikinn í leikslok.
Fögnuður Lyngby var ósvikinn í leikslok. Twitter@LyngbyBoldklub

Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Lyngby munu leika í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta á næstu leiktíð. Sætið var tryggt með 1-1 jafntefli gegn Nyköbing á útivelli í kvöld. Þá lagði Aron Sigurðarson upp eitt marka Horsens er liðið vann 4-0 útisigur á Fredericia og tryggði sér einnig sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Freyr tók við Lyngby fyrir komandi tímabil og var stefnan strax sett á að fara upp um deild þó svo að félagið hefði misst stóran hluta leikmannahópsins. Freyr sótti til að mynda Sævar Atla Magnússon til Leiknis Reykjavíkur en hann hóf leik kvöldsins á bekknum.

Lyngby komst yfir eftir rúmlega stundarfjórðung gegn Nyköbing. Varnarmaðurinn Rasmus Pedersen með markið. Það virtist allt ætla að stefna í að það yrði eina mark leiksins en heimamenn jöfnuðu í blálokin. 

Lokatölur 1-1 en þar sem Hvidovre vann Helsingör þá er Lyngby komið upp þegar ein umferð er eftir af dönsku B-deildinni. Sævar Atli spilaði 20 mínútur í leik kvöldsins.

Horsens tryggði sæti sitt í úrvalsdeildinni með stæl en liðið vann frábæran 4-0 útisigur á Fredericia. Aron Sigurðarson lagði upp annað mark liðsins á 27. mínútu en staðan var 2-0 gestunum í vil í hálfleik. Mark snemma í síðari hálfleik gulltryggði í raun sigurinn en fjórða markið kom undir lok leiks. Aron var tekinn af velli á 73. mínútu.

Lokaumferð umspils dönsku B-deildarinnar fer fram á sunnudag en þar kemur í ljós hvaða lið vinnur B-deildina. Horsens er með pálmann í höndunum en liðinu dugir jafntefli til að tryggja sér sigur í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×