Erlent

Fundu afskorið höfuð þingmanns sem var saknað

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður í Nígeríu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Lögreglumaður í Nígeríu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Lögregla í Nígeríu fann afskorið höfuð þingmanns sem hvarf í Anambra-ríki í síðustu viku. Enginn hefur verið handtekinn vegna morðsins en aðstoðarmaður þingmannsins hvarf með honum.

Höfuð Okechukwu Okoye, þingmanns á ríkisþingi Anambra, fannst í garði í Nnewi á laugardagskvöld. Ekkert hafði spurst til hans eða aðstoðarmanns hans frá sunnudeginum 15. maí.

Ríkisstjórinn í Anambra hefur heitið hverjum þeim sem getur veitt upplýsingar um morðingjana 24.000 dollara verðlaunum, jafnvirði rúmlega 3,1 milljónar íslenskra króna.

Anambra er í suðaustanverðri Nígeríu en þar hefur hópur aðskilnaðarsinna framið morð og rænt fólki, að sögn lögreglu. Frumbyggjar Biafra, samtök sem nígerísk stjórnvöld hafa bannað, fara fremst í flokki að krefjast sjálfstæðis.

Vopnaðir menn drápu og afhöfðuðu tvo hermenn í Imo, næsta ríki við Anambra, fyrr í þessum mánuði. Stjórnvöld saka Frumbyggja Biafra um að bera ábyrgð á morðunum en þau sverja ásakanirnar af sér, að sögn Reuters-fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×