Fótbolti

Sjáðu vítaklúður Andra og rifrildi hans við Mpongo

Atli Arason skrifar
Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður ÍBV, í baráttunni við Halldór Smára Sigurðsson, leikmann Víkings, í Lengjubikarnum í vetur. 
Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður ÍBV, í baráttunni við Halldór Smára Sigurðsson, leikmann Víkings, í Lengjubikarnum í vetur.  Hulda Margrét

Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður ÍBV, klikkaði á vítaspyrnu eftir að hafa rifist við samherja sinn, Hans Kamta Mpongo, um það hver ætti að taka vítaspyrnuna.

ÍBV og ÍA gerðu markalaust jafntefli á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum gær. Á 93. mínútu fá Eyjamenn dæmda vítaspyrnu eftir að Aron Bjarki Jósepsson, leikmaður ÍA, togar Andra Rúnar niður inn í vítateig gestanna.

Erlendur Eiríksson, dómari leiksins dæmir vítaspyrnu og Andri gerir sig líklegan að taka vítaspyrnuna áður en Mpongo kemur og tekur boltann af Andra.

Leikmennirnir virðast þá rífast í drykklanga stund um það hver fær að taka spyrnuna áður en aðrir leikmenn ÍBV mæta á svæðið og láta Andra fá boltann. 

Þessi orðaskipti voru þó ekki nóg því leikmennirnir rifust áfram eftir að Erlendur var búinn að flauta leikinn af og þá þurfti að stíga þá í sundur.

Klippa: Andri Rúnar Bjarnason og Hans Kamta Mpongo rífast um víti

Hvort að þetta uppátæki hafi truflað Andra eitthvað er erfitt að gera grein fyrir. Andri steig allavegana á punktinn og klikkaði á vítaspyrnunni sem hefði fært ÍBV stiginn þrjú þar sem leikurinn var flautaður af stuttu síðar. 

ÍBV er eftir leikinn í næst neðsta sæti deildarinnar með þrjú stig á meðan ÍA er í því áttunda með sex stig.

Klippa: Vítaklúður Andra Rúnars gegn ÍA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×