Þeir sem óttuðust eitthvað ryð í vel slípuðum leik Valsmanna frá því í sópinu á móti Selfossi fengu fljótt svar um að slíkar áhyggjur voru algjörlega óþarfar.
Valsmenn voru ekki bara tilbúnir í slaginn heldur buðu þeir hreinlega upp á fullkomnasta fyrri hálfleik í sögu lokaúrslita karla.
Það var ljóst í hvað stefndi því Valsliði vann fyrstu fimm og hálfu mínútuna 7-2 og var búið að ná tíu marka forystu, 17-7, þegar Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari ÍBV, tók sitt annað leikhlé eftir aðeins 22 mínútna leik.
Valsliðið vann fyrri hálfleikinn á endanum með þrettán marka mun, skoraði 22 mörk gegn aðeins níu mörkum Eyjamanna. Þetta er langmesta forysta eftir fyrri hálfleik í sögu úrslitaeinvígisins.
Gamla metið var sjö marka forysta sem fimm lið höfðu náð síðan að úrslitakeppnin var sett á laggirnar árið 1992. Valsmenn voru að bæta það met um sex mörk og fóru því langt með að tvöfalda gamla metið.

Leikmenn Vals buðu líka upp á magnaða tölfræði hvert sem var litið í þessum stórbrotna fyrri hálfleik.
Valsmenn nýttu skotin sín 85 prósent í fyrri hálfleiknum en þeir klikkuðu aðeins á fjórum skotum allan hálfleikinn.
Eins var markvarslan í heimsklassa en Björgvin Páll Gústavsson varði 17 skot í fyrri hálfleiknum eða 65 prósent skotanna sem á hann komu.
Valsmenn voru líka með yfirburði í hálfleiknum í stoðsendingum (15-2), löglegum stöðvunum (14-6), stolnum boltum (5-2), gegnumbrotsmörkum (5-1) og hreinum hraðaupphlaupsmörkum (6-1).
Jú, þetta var sögulegur hálfleikur sem verður seint jafnaður nema kannski af þessu magnaða Valsliði sem enginn hefur ráðið við í þessari úrslitakeppni.
- Besti fyrri hálfleikur í sögu lokaúrslita karla í handbolta:
- +13 Valur á móti ÍBV í leik eitt 2022 (22-9)
- +7 KA á móti Val í leik þrjú 1996 (17-10)
- +7 Valur á móti Fram í leik fjögur 1998 (13-6)
- +7 Haukar á móti KA í leik tvö 2001 (15-8)
- +7 Fram á móti Haukum í leik fjögur 2013 (14-7)
- +7 FH á móti Val í leik fjögur 2017 (19-12)
- +6 Valur á móti Haukum í leik eitt 1994 (13-7)
- +6 Afturelding á móti FH í leik þrjú 1999 (16-10)
- +6 Haukar á móti KA í leik fjögur 2001 (18-12)
- +6 Haukar á móti Fram í leik þrjú 2011 (18-12)