Gueye hefur ekki viljað tjá sig um málið og þær „persónulegu ástæður“ sem lágu að baki því að hann tók ekki þátt í leik með PSG gegn Montpellier um helgina.
New York Times segir að Gueye hafi ferðast með PSG í leikinn en ekki viljað klæðast sérstakri treyju liðsins, með regnbogalitum númerum, sem notaðar voru í leiknum. Treyjurnar voru liður í að vekja athygli á fordómum í garð LGBTQI+ fólks sem nú virðast svo sannarlega fyrirfinnast í búningsklefa frönsku meistaranna.
Gueye hefur fengið stuðning úr æðstu stöðum í heimalandi sínu. „Ég styð Idrissa Gana Gueye. Það verður að sýna trúarskoðunum hans virðingu,“ skrifaði Macky Sall, forseti Senegal, á Twitter. Samkynhneigð er bönnuð með lögum í Senegal.
Siðanefnd franska knattspyrnusambandsins hefur hins vegar sent Gueye bréf og krafið hann svara um ástæður þess að hann neitaði að spila gegn Montpellier.
Í bréfinu segir að annað hvort sé orðrómurinn ósannur og að Gueye þurfi þá strax að leiðrétta hann, og megi þá taka mynd af sér með regnbogalitu treyjuna, eða þá að orðrómurinn sé sannur. Í því tilviki sé Gueye beðinn um að hugsa um þær slæmu afleiðingar sem hegðun hans hafi í för með sér.
„Baráttan gegn mismunun ólíkra hópa er barátta sem stöðugt þarf að sinna,“ segir í bréfi siðanefndarinnar til Gueye. „Mismunun getur verið af ólíkum toga og tengst hörundslit, trúarbrögðum, kynhneigð og fleiru en felur alltaf í sér að fólk sé útilokað fyrir að vera ólíkt öðrum. Með því að neita að taka þátt ert þú að sýna stuðning við fordómafulla hegðun og útilokun fólks, ekki bara LGBTQI+ samfélagsins.“