Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- Forsvarsmenn Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) hafa sent 42 sérfræðinga til að rannsaka meinta stríðsglæpi í Úkraínu. Þetta mun vera stærsti hópur rannsakenda sem ICC hefur sent út vegna meintra stríðsglæpa.
- Ráðamenn í Kreml segja að það yrði hreinn og beinn þjófnaður ef G7-ríkin notuðu frystar eigur rússneska ríkisins í þágu uppbyggingar í Úkraínu. Slíkt hefur verið sagt til umræðu bæði hjá G7 og innan ESB.
- Heimildarmenn á Vesturlöndum segja að Vladimir Pútín Rússlandsforseti sé sjálfur farinn að skipta sér af skipulagningu herfla Rússa í Úkraínu, sérstaklega í Donbas.
- Svo virðist sem óánægja sé að magnast í Rússlandi með hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu, ekki síst með það hvernig þær hafa verið að ganga. Vinsælir netverjar og jafnvel sjónvarpsmenn eru farnir að gagnrýna gang stríðsins og fjölskyldur rússneskra hermanna vilja fá þá heim.
- Úkraínumenn eru sagðir hafa hrakið rússneskar hersveitir frá Kharkív og aftur að landamærum Rússlands, þar sem Rússar freista þess að hindra að úkraínsku sveitirnar komist í árásarfæri við rússnesku borgina Belgorod, sem er hernaðarlega mikilvæg.
- Breska varnarmálaráðuneytið segir að þvert á yfirlýsingar Rússa um að þeir ráðist ekki gegn borgaralegum skotmörkum virðist allt benda til þess að þeir séu að nota ónákvæm vopn sem hafi valdið gríðarlegum skaða í íbúðahverfum.
