Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Ég er held ég bara frekar fín týpa, get vissulega verið mjög erfið og þrjósk eins og okkur sporðdrekunum er einum lagið, en yfirleitt er ég bara mikil stemningskona og tek lífinu ekki of alvarlega.
Hvað veitir þér innblástur?
Það er kannski klisja en ég er aldrei jafn inspíreruð og þegar ég fer á mína uppáhalds staði á landinu, gamla sveitin hjá ömmu og afa í Ísafjarðardjúpi og Flatey, það er eitthvað töfrandi við þessi pleis og smá eins og að fara hundrað ár aftur í tímann og aftengja sig þessu katastrófíska módern lífi.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Bara hundrað prósent umvefja sig skemmtilegu og fyndnu fólki.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Vá ég held það concept sé ekki til í mínu lífi, ég er ekki mikil rútínustelpa verandi freelance leikkona, flugfreyja og full time mommy aðra hverja viku. Sumir dagar pakkaðir og aðrir mjög tjillaðir.
Uppáhalds lag og af hverju?
Úff þetta er ógeðslega erfið spurning, ég á ekkert eðlilega mörg ólík uppáhalds lög. En ég datt aftur inn á lagið I feel better með Hot Chip um daginn sem ég dýrkaði í menntó og er mikið stuð lag. Svo er nýja Future platan líka að koma vel við mig.
Uppáhalds matur og af hverju?
Ef ég á að vera 100% hreinskilin þá er grilluð samloka með skinku og osti og dippa í dijon svona topp 3 besta sem ég fæ og ég borða það örugglega annan hvern dag, En ef ég á að vera kúltiveruð þá dýrka ég líka gott sushi. Og sýrðan rjóma.
Besta ráð sem þú hefur fengið?
Amma heitin sagði alltaf við mig að það væri ekkert gaman af neinu í lífinu nema það væri erfitt og maður þyrfti að hafa fyrir því. Ég er svona aðeins farin að skilja það. Líka bara sleppa tökunum og trúa því að allt fari eins og það á að fara.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Lifa því LIFAND! Nei ég veit það ekki, bara reyna að hafa gaman af þessu.