Erlent

Gætu skyldað tæknirisa til að finna og fjarlægja barnaklám

Kjartan Kjartansson skrifar
Drög að nýjum reglum til að uppræta barnaklám voru kynntar í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í dag.
Drög að nýjum reglum til að uppræta barnaklám voru kynntar í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í dag. Vísir/EPA

Drög að reglum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur til meðferðar gæti sett skyldur á herðar tæknirisa eins og Google og Meta að finna og fjarlægja barnaklám á netinu. Persónuverndarsamtök óttast að friðhelgi samskipta fólks geti verið ógnað verði reglurnar að veruleika.

Reglurnar eiga að koma í stað núgildandi reglna sem eru valkvæðar fyrir fyrirtæki. Framkvæmdastjórnin telur þær hafa dugað skammt til að vernda börn. Þannig bárust fleiri en milljón tilkynninga um misnotkun á börnum innan sambandsins árið 2020 og fjölgaði þeim um 64% í fyrra. Þá er um 60% af barnaníðsefni í heiminum hýst á evrópskum netþjónum, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Fyrirtækjunum yrði gert skylt að tilkynna um og fjarlægja þekktar og nýjar myndir og myndbönd og einnig nettælingu. Sérstök eftirlitsstofnun fær það verkefni að taka við tilkynningum fyrirtækjanna og vísa þeim til lögreglu eftir atvikum.

Reglurnar ættu bæði við um nethýsingu og netþjónustu, þar á meðal samskiptaforrit. Samtökin Evrópsk stafræn réttindi segja að með þessu sé dulkóðuðum samskiptum ógnað og opnað verði á möguleikann á gerræðislegu eftirliti með fólki á netinu.

Talsmenn fyrirtækjanna taka í sama streng. Fulltrúa Meta segir mikilvægt að reglurnar grafi ekki undan dulkóðuðum samskiptum sem vernda öryggi og einkalíf milljarða manna, þar á meðal barna.

Aðildarríki Evrópusambandsins og Evrópuþingið þurfa að samþykkja tillögurnar áður en þær öðlast gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×