Fréttastofa hefur sagt frá sögu Dariu sem flúði ofsóknir lögreglu sem hún sætti vegna mótmæla í garð Alexanders Lúkasjenka. Lögreglan hótaði að taka af henni son hennar og senda hann á munaðarleysingjahæli.
Sjá nánar: Gert að yfirgefa landið þrátt fyrir opið kynferðisbrotamál
Daria kom fyrst til Íslands í ágúst síðastliðinn og hefur hún komið sér vel fyrir og tengst landi og þjóð. Hér býr stjúpfaðir hennar og íslenskur kærasti. Á Íslandi fann hún líka langþráð öryggi eftir róstursama tíma í heimalandinu sem einkenndist af mótmælum og óöld.
Daria segist hafa orðið fyrir alvarlegu kynferðisbroti af hálfu karlmanns hér á landi og er málið nú í rannsókn lögreglu. Umsókn hennar um alþjóðlega vernd verður tekin upp að nýju hjá Útlendingastofnun en henni var synjað um hana í febrúar á þeim forsendum að Pólland væri ábyrgt fyrir umsókn hennar vegna Dyflinnarreglugerðarinnar. Vegna breyttra aðstæðna í Póllandi hefur verið fallist á endurupptöku málsins.
„Ég yrði afskaplega þakklát öllum þeim sem skrifa undir,“ segir Daria í samtali við fréttastofu en hún óskar eftir stuðningi íslensku þjóðarinnar.
Stundin hefur fjallað um sögu Alinu sem er á lista yfir óvini hvít-rússneska ríkisins. Hún var handtekin fyrir að mótmæla og brotin niður bæði líkamlega og andlega.
Andrei Menshenin, rússneskur blaðamaður sem er búsettur á Íslandi, efndi til undirskriftarsöfnunarinnar og þegar þessi orð eru skrifuð hefur 121 ritað nafn sitt á listann.