Lífið

Systurnar sagðar eiga betri líkur á að komast á­fram eftir fyrstu æfingu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigga, Beta og Elín á fyrstu æfingu fyrir Eurovision.
Sigga, Beta og Elín á fyrstu æfingu fyrir Eurovision. EBU/ANDRES PUTTING

Systurnar Sigga, Beta og Elín eru mættar til Tórínó á Ítalíu þar sem keppt verður í Eurovision í næstu viku. Fyrstu myndskeiðin af æfingum systranna hafa verið birt og Eurovisionsérfræðingar telja systurnar eiga enn betri líkur á að fá framgang í keppninni eftir að hækkun var bætt í lagið. 

Myndbrotið af æfingu systranna birtist í dag og er um hálfrar mínútu langt. Hlusta má á það hér að neðan. 

Systurnar hafa haldist nokkuð neðarlega í veðmálabönkum frá því að framlag okkar Íslendinga var valið en hafa hoppað upp eftir að myndbrotið var birt og eru þær nú í 34. sæti í veðmálabanka Eurovision World. 

Ísland er í 34. sæti í veðmálabanka Eurovision World.Skjáskot

Eftir að myndbrotið birtist eru, eins og áður segir, systurnar taldar líklegri til að komast áfram í úrslitakeppnina. Nokkrir Eurovisionsérfræðingar settust niður í dag og nefndu sérstaklega að nýviðbætt hækkun í laginu komi sérstaklega vel út. 

Íslenski hópurinn mætti þar að auki á sinn fyrsta blaðamannafund í dag. Þar voru þær spurðar út í Friðartónleika sem þær tóku þátt í í Hallgrímskirkju í mars, stuttu eftir að fyrstu flóttamennirnir frá Úkraínu komu hingað til lands. Tónleikarnir voru vel sóttir og systurnar fluttu sálinn We Shall Overcome á tónleikunum. 

Sigga sagði í svari sínu að tónleikarnir hafi verið þeir erfiðustu sem þær hefðu tekið þátt í. 

„Ég fór að gráta og þetta var mjög tilfinningaþrungið. Við höfum mikla samúð með Úkraínu og úkraínsku þjóðinni. Við viljum segja ykkur að við hugsum og tölum um ykkur alla daga og ykkur verður ekki gleymt. Þó fjölmiðlar missi áhugann á ykkur munum við enn hugsa til ykkar,“ sagði Sigga. Svar hennar má sjá í myndskeiðinu hér að neðan á tímastimplinum 4:15. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×