Tíska og hönnun

Framleiða fyrstu íslensku fatalínuna sem ætluð er til útleigu í stað einkaeigu

Elísabet Hanna skrifar
Frá hægri til vinstri: Kristín Edda Óskarsdóttir, Patsy Þormar, Sigríður Guðjónsdóttir
Frá hægri til vinstri: Kristín Edda Óskarsdóttir, Patsy Þormar, Sigríður Guðjónsdóttir Kristinn Magnússon.

Þær Patsy Þormar, Kristín Edda Óskarsdóttir og Sigríður Guðjónsdóttir eru stofnendur fataleigunnar Spjara en allar brenna þær fyrir samfélagsdrifinni nýsköpun. Með SPJARA fær fólk aðgang að fjölbreyttri tískuvöru með auðveldari, ódýrari og sjálfbærari hætti.

Blaðamaður hafði samband við Patsy Þormar og fékk að heyra af þróun fyrirtækisins og þátttökunni í HönnunarMars.

Hvernig er stemningin fyrir HönnunarMars?

Það er gríðarleg stemning fyrir HönnunarMars og ótrúlega gaman að sjá hvað fatahönnun er gert sérstaklega hátt undir höfði í ár. Eins og við vitum flest er vistspor tískuiðnarins gríðarlega mikið, og auk kolefnislosunar hefur í för með sér gífurlega efnamengun, eyðileggu vistkerfa og rýrnun auðlinda. Fyrir utan samfélagslegu áhrifin tengt aðbúnaði og réttindum vinnufólks víða um allan heim. 

Hraðtíska eða fast fashion hefur verið alveg sérstaklega í brennidepli undanfarið og ljóst er að við verðum að taka stakkaskiptum ef stemma á stigu við sífellt vaxandi vandamáli. 

„Við megum ekki gleyma því að við getum öll lagt eitthvað af mörkum til gera tískuheiminn vistvænni og sanngjarnari.“

Hlutverk hönnuða er stór partur af lausninni og íslenskir fatahönnuðir hafa tekið áskoruninni af miklu kappi og leggja mikið upp úr sjálfbærri framleiðslu. Öll sköpun og öll skapandi hugsun snýst í raun um að leysa vandamál með nýjum nálgunum og það er geggjað að sjá hversu mikið vægi umhverfismálin njóta á hátíðinni. 

SPJARA ætlar sér að sjálfsögðu að vera þar í fararbroddi en okkar lausn snýst um að styrkja sjálfbæra nýtingu fata og textíls með því að bjóða aðgang að vöru með þjónustu frekar en kaupum. Með þátttöku sinni á HönnunarMars óskar SPJARA eftir að skapa rými fyrir samtal við hönnuði, fagfólk og almenning um möguleika hringrásarlausna á borð við SPJARA til að efla íslenska hönnun og koma henni á framfæri með nýjum leiðum.

Hafið þið tekið þátt áður?

SPJARA opnaði í september 2021 og erum svo ný af nálinni að þetta er fyrsta en alveg örugglega ekki síðasta skiptið sem SPJARA tekur þátt. Við erum sannarlega spenntar að vera með og stimpla okkur almennilega inn á íslensku hönnunarsenunni. Sérstaklega í ljósi þess að það er í raun er ótrúlegt að hugsa til þess að SPJARA var rétt bara hugmynd á þessum tíma fyrir ári. 

„Við förum því auðmjúkar inn í þetta en auðvitað erum við líka mjög stoltar að vera boðin með í þessari veglegu hátíð sem HönnunarMars er.“

Hvernig kviknaði hugmyndin?

Hugmyndin kviknaði á hakkaþoni hjá Umhverfisstofnun í ágúst 2020 og þar kynntumst við fyrst. Það gaf okkur gríðarlegan meðbyr að sigra þá keppni og ég held einhvern veginn innst inni hafi ég a.m.k. haft það á tilfinningunni að þetta væri upphafið að einhverju stórkostlegu, þótt mig hefði aldrei grunað núna næstum tveimur árum seinna að ég yrði stödd hérna í dag.

Við höfðum allar svo gríðarlega ástríðu fyrir hugmyndinni að það var engin spurning um að halda áfram með hana. Ekki bara af ástríðu, heldur trú. Við vitum að breyttir neysluhættir, breytt hegðun og í raun gerbreytt hugsun er framtíðin.

Hver voru fyrstu skrefin í að framkvæma hana?

Hvar á ég að byrja? Alltof mörg! Fyrsta árið gekk á með miklum ólgusjó og fengum mikið af höfnunum, en það er partur af ferlinu held ég. 

„Nýsköpun hljómar gjarnan eins og það sé ógeðslega kúl og alltaf föstudagur en í raun er þetta ekkert annað er blóð, sviti og tár og að halda áfram þótt að á móti blási og hlúa að tilgangi sínum.“

Það sem skipti sköpum fyrir okkur er nákvæmlega þetta - tilgangur: Við erum ekki bara með eitthvað fyrirtæki heldur erum við að reyna að breyta heiminum og hafa áhrif til góðs. Þetta eru mörg kvöld vinnandi fram á nótt, margir fórnir þegar maður gæti gert eitthvað annað næs fyrir sig við tímann sinn. En trúin að hugmyndin keyrir okkur áfram, og svo er þetta auðvitað ekkert annað en vinna.

Hvernig viðbrögð hefur leigan verið að fá?

Viðtökurnar hafa gengið alveg hreint framar vonum. Eftirspurnin eftir þjónustu er mikil og við finnum að notendur okkur hafa hreinlega verið að bíða eftir einhverju eins og þessu. Það er líka ótrúlega gaman að finna hve mörg þekkja SPJARA nafnið í dag miðað við á sama tíma í fyrra þegar við vorum alltaf að útskýra hvað SPJARA væri eiginlega. Þetta er gjörbreytt staða í dag. Fólk hefur tekið okkur fagnandi sem er alls ekki sjálfsagt og við kunnum miklar þakkir fyrir það.

Er þetta sambærilegt einhverju sem er í gangi í dag?

Ekkert íslenskt fyrirtæki eða samtök bjóða sambærilega þjónustu með tískuvöru eins og SPJARA. Það er þó frábært að sjá að leiguþjónustur eins og Tool Library og Hopp koma fersk inn af miklum krafti og hugsa upp á nýtt hvernig við notum og neytum hlutina í kring um okkur. 

Þetta er ekki bara tækifæri til að minnka vistsporið sitt heldur einnig upplifa eitthvað nýtt. Að spókera um í „nýjum" kjól sem þú þarft ekki að þvo eða setja í geymslu eða pæla í hvort passi við eitthvað sem þú átt nú þegar, heldur bara njóta augnabliksins.

Hvað hefur verið skemmtilegasta verkefnið hjá ykkur til þessa?

Að stimpla okkur almennilega inn í hönnunarsenunni hefur verið eitt meiriháttar verkefni. Við viljum styrkja og efla íslenska hönnun, einkum unga og upprennandi hönnuði. Fataleiga skapar einmitt nýja möguleika fyrir hönnuði til að integrera "slow-design principles" eða hugsa hönnun hægar. 

Hanna og framleiða minna, með betri gæðum, jafnvel "one-of-a-kind" flíkur sem fá að taka sitt pláss í sviðljósinu í stað þess að vera sífellt skipt út með nýrri og nýrri vörum. Kerfið styður líka samfélagslega hugsun: margir geta deilt í gegnum fataleigu í staðinn fyrir að setja hönnunina í fjöldaframleiðslu og sölu.

Hvernig verður viðburðurinn ykkar?

Viðburðurinn heitir „Að SPJARA sig í sjálfbærum heimi: Framtíð fataneyslu á Íslandi?“ og þar bjóðum við upp á pop-up fataleigu og co-design viðburð. Co-design er ferli sem býður almenningi að virkja sköpunargleðina og taka þátt í að móta framtíðarsýn fyrir sjálfbæra framtíð íslenskrar tísku á samhönnunar (co-design) viðburði SPJARA. 

„Öll velkomin, hvort sem þú ert reyndur fatahönnuður eða féllst í textílmennt, því sterk framtíðarsýn byggir á fjölbreyttum sjónarmiðum.“

Á laugardeginum verður einnig sérstök vinnustofa um co-design, en takmarkaður fjöldi plássa er í boði svo skráning er nauðsynleg í gegnum Facebook síðu viðburðarins.

Hvernig verður pop-upið?

Á pop-up fataleigu SPJARA býðst gestum að klæða sig upp og leiga sér sparifatnað yfir hátíðina. Ungir upprennandi íslenskir hönnuðir eru þar í fyrirrúmi. Við erum svo ótrúlega ánægðar með það samstarf og það er virkilega gefandi að vinna með hönnuðum. Við vonum að SPJARA opni á ný mið fyrir þau og erum sannarlega þakklát traustinu sem þau hafa sýnt okkur.

Hvað er framundan?

Framundan er gríðarlega spennandi verkefni sem hefur fengið vinnuheitið FÖNIX (með vísun í eldfugl sem rís upp úr öskunni) en SPJARA hefur fengið styrk frá Hönnunarsjóði til að láta hanna og framleiða fyrstu íslensku fatalínuna sem ætluð er til útleigu í stað einkaeigu. 

„Við höfum fengið til liðs við okkur frábæran ungan hönnuð, Sól Hansdóttur sem hannaði búninganna fyrir Reykjavíkurdætur í söngvakeppni sjónvarpsins.“

HönnunarMars 2022 fer fram 4. til 8. maí. Alla dagskránna má finna á vef hátíðarinnar

Frítt er inn á alla viðburði fyrir utan DesignTalks ráðstefnuna í Hörpu. HönnunarMars er opinn öllum og dagskráin er fjölbreytt svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  

Hér má finna alla okkar umfjöllun um HönnunarMars 2022


Tengdar fréttir

#íslenskflík: „Ég sá hana ljóslifandi fyrir mér í höfðinu“

Helga Lilja Magnúsdóttir hjá BAHNS er fyrsti viðmælandinn í #íslenskflík sem er verkefni Fatahönnunarfélags Íslands sem miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem hér er að finna.

„Þar mun ég eiga einhvers konar blint stefnumót“

Magnea Einarsdóttir er útskrifaður fatahönnuður með áherslu á prjón frá Central St Martins í London. Einnig lagði hún stund á nám í fatahönnun í Parsons Paris School of Design. Hún rekur fatamerkið MAGNEA sem er fáanlegt í versluninni Kiosk.

Erlendir gestir streyma til landsins vegna HönnunarMars

Fjöldi erlendra ferðamanna og gesta eru á landinu um helgina vegna HönnunarMars hátíðarinnar. Í gærkvöldi var mótttaka fyrir erlent fjölmiðlafólk á Slippbarnum á Icelandair hótel Reykjavík Marina, sem verður sérstakur hátíðarbar HönnunarMars í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×