Íslenski boltinn

Emil sá fyrsti í meira en ára­tug til að skora þrennu hjá Ís­lands­meisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Atlason er kominn með fjögur mörk í fyrstu þremur umferðunum.
Emil Atlason er kominn með fjögur mörk í fyrstu þremur umferðunum. Vísir/Hulda Margrét

Emil Atlason var í miklu stuði í Bestu deildinni í gær en hann skoraði þá þrennu í 5-4 sigri Stjörnunnar á Íslandsmeisturum Víkings á Víkingsvellinum. Það var orðið langt síðan að ríkjandi meistarar fengu á sig þrennu.

Emil er búinn að finna skotskóna því hann var að skora í öðrum leiknum í röð. Hann bauð líka upp á fjörbreyttar afgreiðslur í gær og innsiglaði þrennuna með skutluskalla sem minnti mikið á karl föður hans Atla Eðvaldsson heitinn.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin hans Emils í gær ásamt öllum níu mörkum leiksins.

Klippa: Víkingur 4-5 Stjarnan

Emil varð þarna sá fyrsti til að ná að skora þrennu hjá ríkjandi Íslandsmeisturunum í tíu ár og rúma sjö mánuði eða síðan 19. september 2011 þegar Björgólfur Hideaki Takefusa skoraði þrennu fyrir Víking í 6-2 sigri á Blikum.

Þrenna Björgólfs kom í 20. umferð þegar Víkingsliðið var fallið og Blikar farnir að nálgast fallbaráttuna í erfiðri titilvörn sinni.

Víkingar höfðu unnið tvö fyrstu heimaleiki sína í sumar auk þess að vinna þrjá síðustu heimaleiki sína í fyrra. Víkingsliðið fékk þrjú mörk á sig í þessum fimm leikjum eða jafnmörg og Emil skoraði einn í gær.

Frá árinu 1980 hafa ellefu leikmenn náð því að skora þrennu á móti ríkjandi Íslandsmeisturum en Emil var þó aðeins sjá þriðji til að ná því síðan deildin innihélt fyrst tólf lið sumarið 2008. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þessar þrennur.

  • Síðustu menn til að skora þrennu hjá ríkjandi Íslandsmeisturum:
  • 2. maí 2022
  • Emil Atlason, fyrir Stjörnuna á móti Víkingi
  • 19. september 2011
  • Björgólfur Hideaki Takefusa, fyrir Víking á móti Breiðabliki
  • 2. júní 2008
  • Iddi Alkhag, fyrir HK á móti Val
  • 20. september 2003
  • Guðmundur Sævarsson, fyrir FH á móti KR
  • 15. september 2002
  • Gunnar Heiðar Þorvaldsson, fyrir ÍBV á móti ÍA
  • 29. maí 2002
  • Grétar Hjartason, fyrir Grindavík á móti ÍA
  • 2. júlí 1997
  • Einar Þór Daníelsson, fyrir KR á móti ÍA
  • 8. júní 1996
  • Rastislav Lazorik, fyrir Breiðablik á móti ÍA
  • 31. ágúst 1995
  • Mihajlo Bibercic, fyrir KR á móti ÍA
  • 31. maí 1981
  • Lárus Guðmundsson, fyrir Víking á móti Val
  • 5. júlí 1980
  • Helgi Ragnarsson, fyrir FH á móti ÍBV



Fleiri fréttir

Sjá meira


×