Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Njarðvík 51-65 | Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar

Atli Arason skrifar
Njarðvíkingar gátu leyft sér að fagna vel og innilega þegar bikarinn fór á loft.
Njarðvíkingar gátu leyft sér að fagna vel og innilega þegar bikarinn fór á loft. Vísir/Bára

Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar kvenna í körfubolta eftir 14 stiga sigur gegn Haukum í oddaleik í kvöld, 51-65.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn töluvert betur en skotnýting Hauka var ekki nægilega góð. Eina karfa Hauka utan af velli í fyrsta leikhluta var þriggja stiga karfa frá Elísabeth Ýr í upphafi leiks. Lovísa Björt gerði svo tvö önnur stig fyrir Hauka undir lok fjórðungsins úr tveimur vítaskotum en meira skoruðu heimakonur ekki í fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar gengu á lagið hinu megin og kláruðu sínar sóknir. Munurinn varð mest 11 stig í tvígang en Njarðvíkingar unnu fyrsta leikhlutan 5-16. Haukar hittu úr einni af 19 skottilraunum sínum í fyrsta fjórðung.

Diane Diéné, leikmaður Njarðvíkur, var ein af þeim sem stóð upp í kvöld til að létta álaginu af Collier. Diéné gerði 12 stig í leiknum en sjö þeirra komu í fyrsta leikhlutanum.Bára Dröfn

Það var svipuð saga á borðstólnum í öðrum leikhluta. Haukar settu fimm körfur niður utan af velli í leikhlutanum gegn níu frá Njarðvík. Gestirnir bættu hægt og rólega í stigaskorið sitt og unnu þær annan leikhluta aftur með 11 stigum og fóru með mjög svo þægilega 22 stiga forystu inn í hálfleikshléið, 19-41.

Forskot Njarðvíkur varð mest í öllum leiknum í miðjum þriðja leikhluta þegar þær ná 28 stiga forskoti í stöðunni 21-49. Keppni nánast lokið þegar einn og hálfur leikhluti var eftir. Haukarnir sýndu þó hetjulega baráttu og neituðu að gefast upp. Heimakonur minnka muninn niður í 22 stig það sem eftir lifði þriðja leikhluta og staðan fyrir síðasta fjórðung var 32-54.

Haukar spiluðu mun betur í síðasta leikhlutanum en með 10 stiga áhlaupi í upphafi fjórða leikhluta tókst þeim að minnka muninn niður í 12 stig en þær komust ekki lengra en það. Munurinn sveiflast á milli 12 og 17 stiga það sem eftir lifði leiksins og Njarðvíkingar eru verðskuldaðir Íslandsmeistarar eftir 14 stiga sigur í oddleiknum í Ólafssal, 51-65.

Rúnar Ingi, þjálfari Njarðvíkur, fær vatnsgusu frá leikmönnum sínum eftir leikslok.

Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvíkingar komu rosalega vel stemmdar inn í leikinn en þær leiddu leikinn frá annari mínútu og alveg til loka leiksins. Skotnýting Njarðvíkur stendur þar helst upp úr en Njarðvík var með 33% nýtingu utan af velli gegn 22% hjá Haukum en liðin voru frekar jöfn á öðrum tölfræðiþáttum leiksins.

Collier fær verðlaun sem mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar.Bára Dröfn

Hverjar stóðu upp úr?

Aliyah Collier átti annan stórleik og var réttilega launuð í leikslok sem mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Collier var með trölla tvennu í leiknum í kvöld en hún setti niður 24 stig og tók 25 fráköst. Collier setti met í þessum leik en hún er nú sá leikmaður sem hefur bæði gert flest stig og tekið flest fráköst allra í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

Bjarni: Njarðvíkingar eiga þetta virkilega skilið

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka.Bára Dröfn

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var ekki sáttur við það hvernig liðið sitt mætti til leiks í þessum oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

„Fúlt hvernig við komum inn í leikinn, þetta var ekki planið. Það eru allir svekktir og súrir núna en áfram gakk,“ sagði Bjarni í viðtali við Vísi í leikslok, áður en hann bætti við.

„Spennustigið var ekki rétt og það er eitthvað sem ég sem þjálfari verð að taka á. Ég verð að líta á hvað við hefðum getað gert öðruvísi í undirbúningnum. Við vorum langt frá okkar besta í dag með eitthvað um 20% skotnýtingu í leiknum og við töpuðum alltof mikið af boltum. Hausinn var ekki rétt skrúfaður á okkur. Það var smá endurkoma undir restina en hún hefði mátt standa yfir lengur og okkur vantaði stærri körfur til að gera þetta að alvöru endurkomu. Við vorum fyrst og fremst rosalega slakar stærstan hluta leiksins.“

Haukum var spáð Íslandsmeistaratitlinum í upphafi tímabils á meðan fáir bjuggust við einhverju af nýliðunum í Njarðvík. Bjarni viðurkennir að liðið sitt ætlaði sér meira þrátt fyrir að vera tvöfaldur bikarmeistari og grátlega nálægt Íslandsmeistaratitlinum sjálfum. Það hjálpaði ekki til að liðið var í vandræðum með meiðsli nánast allt tímabilið.

„Auðvitað er maður bara súr núna, við ætluðum okkur meira. Á morgun er nýr dagur og þá þurfum við að fara yfir tímabilið og sjá hvað við hefðum getað gert betur. Hauka liðið kemur betur stemmt á næsta ári. Við ætlum ekki að taka neitt af Njarðvíkur liðinu sem á þetta virkilega skilið en það hjálpaði ekki til hjá okkur í allan vetur að við erum búnar að eiga við meiðslavandræði nánast frá degi eitt og nokkrir lykilleikmenn sem eru bara ekki heilar,“ sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka.

Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar árið 2022Bára Dröfn

Lárus Ingi Magnússon, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur og fyrirliðinn Vilborg Jónsdóttir fallast í faðma eftir að sigurinn var í höfn.Bára Dröfn

Helena gegn HelenuBára Dröfn

Gestirnir fjölmenntu í stúkuna í Ólafssal í kvöld.Bára Dröfn

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira