Fótbolti

AGF tapaði í endur­komu Jóns Dags | SönderjyskE heldur í vonina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Dagur í leik með AGF.
Jón Dagur í leik með AGF. vísir/Getty

Slæmt gengi Íslendingaliðs AGF í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta heldur áfram. SönderjyskE, annað Íslendingalið, vann flottan sigur og lifir í voninni um að halda sæti sínu í deildinni.

Forráðamenn AGF ætluðu sér ekki að spila Jón Degi Þorsteinssyni aftur þar sem samningur hans rennur út í sumar. Félagið hafði hins vegar tapað þremur leikjum í röð og var allt í einu í bullandi fallbaráttu. Því var ákveðið að kalla Jón Dag inn í byrjunarliðið er AGF heimsótti OB.

Hann og Mikael Anderson voru báðir í byrjunarliði AGF sem og Jack Wilshere, fyrrverandi leikmaður Arsenal sem og fleiri liða á Englandi. Enginn Aron Elís Þrándarson var sjáanlegur í leikmannahóp OB í dag.

Jakob Breum Martinsen kom OB yfir á 6. mínútu leiksins og reyndist það sigurmarkið, lokatölur 1-0. Mikael spilaði allan leikinn á meðan Jón Dagur var tekinn af velli á 68. mínútu.

Atli Barkarson spilaði allan leikinn í 3-0 útisigri SönderjyskE á Vejle. Kristófer Ingi Kristinsson kom inn af bekknum hjá SönderjyskE á 63. mínútu er staðan var orðin 3-0. Nokkrum mínútum þar á undan hafði Atli nælt sér í gult spjald.

Staðan í fallumspili dönsku úrvalsdeildarinnar er þannig þegar fjórar umferðir eru eftir að SönderjuskE er á botni deildarinnar með 20 stig. Vejle er þar fyrir ofan með 22 stig á meðan AGF er í 10. sæti með 28 stig. Neðstu tvö liðin falla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×