Vala hefur í gegnum tíðina verið að elta ástríðu sína í starfi og var lengi vel eina konan á gólfi í útvarpinu og á tímabili yngst á svæðinu.
„Það er rosalegur sveitalúði í mér,“
segir Vala sem var fædd og uppalin á Akureyri áður en hún flutti í sveitina. Hún segir það hafa verið ákveðna upplifun að koma úr sveitinni inn í þennan heim og er þakklát að hafa fengið þau tækifæri sem henni buðust á þeim tíma.
Var feimin við að gefa út efni
Vala hefur verið að syngja og semja tónlist síðan hún var ung en það var ekki fyrr en árið 2020 sem hún þorði að berskjalda sig og gefa út sitt eigið efni, enda óttinn við höfnun oft til staðar.
„Textinn er sálin fyrir mér og melodían hún bara kemur náttúrulega með en textinn er númer eitt, tvö og þrjú hjá mér,“
segir hún. Hún segir það að gefa út tónlistina sína í rauninni vera að hleypa fólki inn í sitt dýpsta tilfinningaróf.
Núðlu mánuður
Það var þó ekki aðeins óttinn við að berskjalda sig sem olli því hversu langan tíma það tók hana að gefa út efni heldur er slík framleiðsla einnig mjög kostnaðarsöm. Einn daginn fann Vala þó rétta samstarfsfélaga og ákvað að láta reyna á drauminn.
„Þetta verður bara djöfulli erfiður mánuður, ég bara tók framleiðslu á fyrsta laginu mínu og borðaði bara núðlur,“
segir hún um skrefið að láta drauminn rætast.
Vala var gestur í Jákastinu, hlaðvarpi Kristjáns Hafþórssonar. Þar ræddi hún útvarpsferilinn, sigurinn í Allir geta dansað, lífs lífsspeki, dýr og atvik sem hafa mótað hana í gegnum tíðina og framtíðina sem er björt.
Þáttinn má heyra i heild sinni hér að neðan: