Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Tindastóll 93-75 | Njarðvíkingar halda sér á floti með góðum sigri

Árni Jóhannsson skrifar
Basile
Hulda Margrét

Njarðvíkingar unnu Tindastól 93-75 í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Subway deildarinnar í körfuknattleik. Þeir náðu að halda orkustiginu allan leikinn og góður varnarleikur skóp sigurinn. Staðan er því 2-1 fyrir Njarðvík og sýningin heldur á Sauðárkrók um helgina.

Orkan var mjög mikil hjá báðum liðum í upphafi leiks en Stólarnir hittu örlítið betur og náðu sér í lítið forskot en Njarðvíkingar náðu þó vopnum sínum og leikurinn var í fínu jafnvægi þangað til um þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Þá komst Tindastóll í fimm stiga forskot, 15-20, og náðu að byggja ofan á það forskot  til loka leikhlutans. Staðan 21-28 fyrir Tindastól og maður fann fyrir því að það var fljótt í pirring hjá heimamönnum.

Áhyggjur af því að leikmenn væru að pirra sig voru óþarfar því Njarðvíkingar sneru leiknum algjörlega á haus. Þeir hófu annan leikhlutann á 12-0 spretti og staðan 33-28 allt í einu. Njarðvíkingar höfðu mikla orku og náðu að halda henni út hálfleikinn. Varnarleikurinn varð ákafari og ákveðnin í sóknarleiknum óx. Stólarnir náðu þó að jafna sig og halda í við heimamenn en staðan var 49-46 í hálfleik og manni fannst aftur komið jafnvægi á leikinn. 

Seinni hálfleikurinn varð ákafari en sá fyrri. Blaðamaður hafði orð á því að það var eins og leikurinn hafi verið settur í skrúfstykki og hert vel að því sóknarleikurinn varð mjög erfiður hjá báðum liðum. Nico Richotti vaknaði og leiddi sína menn áfram af miklum krafti og þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta var staðan 69-55 og stemmningin öll Njarðvíkur megin. Góð vörn leiddi af sér góða sókn og áttu gestirnir fá svör við ákafanum í heimamönnum. Staðan 79-63 fyrir heimamenn og einn leikhluti eftir en það var enginn rólegur með þá stöðu vitandi hvað gerðist í síðasta leik.

Javon Bess var ískaldur í kvöld og var kominn með sex stig í upphafi fjórða leikhluta og skoraði ekki meira í kvöld. Njarðvíkingar héldu áfram og voru ekki ánægðir með orðinn hlut heldur juku þeir bara ákafann í varnarleik sínum ef eitthvað er. Tindastóll gerði tilraunir til að komast á áhlaup en ekkert virkaði og liðin skiptust á körfum sem hentaði heimamönnum mjög vel. Njarðvíkingar náðu að halda gestunum frá sér og þegar Logi Gunnarsson skoraði úr hraðaupphlaupi þegar ein mínúta var eftir þá tæmdu þjálfararnir bekkina og heimamenn gátu farið að fagna sigrinum. Lokastaðan 93-75 og heimamenn geta gengið stoltir frá borði.

Afhverju vann Njarðvík?

Þeir náðu að halda gæðunum sínum uppi í allar 40 mínúturnar nánast í kvöld. Þeir spiluðu góðan varnarleik og nýttu það til að skpa sér góðan sóknarleik. Þeir náðu að rífa sig upp eftir síðasta leik og sýndu hjarta, ástríðu og stolt til að klára leikinn.

Hvað gekk illa?

Stólarnir hittu illa. Heildarskotnýting þeirra var ekki nema 35% og er það merki um varnarleik heimamanna sem var hart leikinn. Sérstaklega gekk þeim illa í tveggja stiga skotum en 41% þeirra rataði heim á móti 64% heimamanna en liðin tóku svipað mörg skot. Til dæmis þá hitti Bess ekki nema úr tveimur af 10 tveggja stiga skotum sínum og það munar um minna.

Tölfræði sem vakti athygli?

Ólafur Helgi Jónsson var búinn að spila rúmar fimm mínútur í heild sinni í einvíginu til þessa og ekki búinn að skora. Í kvöld spilaði hann 22 míntútur, skoraði sjö stig, tók sex fráköst, stal þremur boltum og varði eitt skot. Það skipti heldur betur máli í að halda gæðunum í leik heimamanna.

Bestir á vellinum?

Nicolas Richotti var bestur á vellinum. Kappinn skilaði 25 stigum, fjórum stoðsendingum og þremur stolnum boltum og leiddi áhlaup Njarðvíkinga þegar þau fóru í gang.

Hjá Stólunum var Sigtryggur Arnar Björnsson stigahæstur ásamt Taiwo Badmuss en þeir voru báðir með 24 stig. Aðrir skoruðu mikið minna og því fór sem fór.

Hvað næst?

Við förum á Sauðárkrók og fylgjumst með leik númer fjögur. Tindastóll hefur gott tækifæri að vinna á heimavelli en Njarðvíkingum líður nú samt vel í Síkinu sé tekið mið af deildarkeppninni. Það verður allavega hörkuleikur sem við fáum og við getum ekki beðið.

Baldur Þór: Það hefði verið ótrúlegt ef við hefðum klárað þá 3-0

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls.vísir/bára

Þjálfari Tindastóls, Baldur Þór Ragnarsson, var að sjálfsögðu súr í leikslok en það var ekki að finna á honum að þetta væri einhver heimsendir að tapa í Njarðvík. Hann var spurður að því hvort orkan sem fór í að ná í síðasta sigur hafi skipt máli í þessum leik.

„Nei ég held ekki. Það er hrikalega erfitt að vinna Njarðvík þrisvar í röð enda með fáránlega gott lið. Það hefði verið ótrúlegt ef við hefðum klárað þá 3-0. Njarðvík var bara betri en við í dag.“

Baldur var spurður út í hvað hafi vantað helst hjá hans mönnum í kvöld.

„Aðallega að skora boltanum. En svo var varnarleikurinn ekki nógu góður á löngum köflum. Þannig að við þurfum bara að vera betri en þetta og þurfum að eiga okkar bestu frammistöðu til að vinna þá. Við stefnum á það í næsta leik.“

Eins og hefur komið fram þá hitti Javon Bess illa og skilaði ekki nema sex stigum. Baldur var spurður að því hvort eitthvað væri að hrjá hann eða hvort hann sæi eitthvað í hans leik sem hafði vantað.

„Hann var bara ekki að finna sig. Þetta gerist bara stundum en hann var ekki að finna sig í dag.“

Að lokum var Baldur spurður að því hvað hann ætlaði að segja við sína menn.

„Við erum bara að fara að jafna okkar. Næsti leikur. Hann verður stríð. Þetta er úrslitakeppnin. Áfram gakk.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira