Innherji

Stefnir byggir upp stöðu í Sýn, meðal tíu stærstu hluthafa

Hörður Ægisson skrifar
Hlutabréfaverð Sýnar, sem rekur meðal annars fjölmiðlana Vísir, Stöð 2 og Bylgjuna, hefur lækkað um tæplega 11 frá áramótum.
Hlutabréfaverð Sýnar, sem rekur meðal annars fjölmiðlana Vísir, Stöð 2 og Bylgjuna, hefur lækkað um tæplega 11 frá áramótum.

Tveir hlutabréfasjóðir í rekstri Stefnis keyptu fyrr í þessum mánuði umtalsverðan eignarhlut í Sýn og fara núna samanlagt með um 3,5 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu. Í krafti þess eignarhlutar eru sjóðir Stefnis – Innlend hlutabréf hs. og ÍS 5 – áttundi stærsti hluthafinn í Sýn.

Hlutabréfasjóðir Stefnis, sjóðastýringarfyrirtæki í eigu Arion banka, voru í lok síðasta mánaðar ekki á meðal tuttugu stærstu hluthafa Sýnar sem áttu 0,9 prósenta hlut eða meira í félaginu.

Ætla má að sjóðir Stefnis hafi keypt hlutina í Sýn þann 12. apríl síðastliðinn, þegar talsverð viðskipti voru með bréf í félaginu, en um miðjan þennan mánuð fóru þeir með samtals 9,43 milljónir hluta að nafnvirði. Miðað við gengi bréfa Sýnar í dag – það stendur í 58,5 krónum á hlut – er markaðsvirði eignarhlutar sjóða Stefnis rúmlega 550 milljónir króna.

Á meðal þeirra hluthafa sem hafa selt eða minnkað við hlut sinn í Sýn á síðustu þremur vikum er lífeyrissjóðurinn Lífsverk, sem átti 5,5 milljónir hluta að nafnvirði í lok marsmánaðar, en hann er núna ekki lengur á meðal tuttugu stærstu hluthafa fjarskiptafyrirtækisins. Þá hefur hlutabréfasjóðurinn Akta Stokkur einnig minnkað lítillega við hlut sinn en hann er eftir sem áður í hópi tíu stærstu hluthafa félagsins með 8,85 milljónir hluta að nafnvirði, eða sem jafngildir 3,3 prósenta eignarhlut.

Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um liðlega 10,7 prósent frá áramótum en á sama tíma hefur Úrvalsvísitalan lækkað lítillega minna, eða um 10 prósent. Sé hins vegar litið til síðustu tólf mánaða hefur gengið bréfa Sýnar hækkað um 36 prósent en markaðsvirði félagsins, sem er hið minnsta af þeim sem eru á Aðalmarkaði Kauphallarinnar, stendur núna í 15,7 milljörðum króna.

Sýn hagnaðist um 2,1 milljarð króna á síðasta ári borið saman við tap upp á 405 milljónir króna á árinu 2020. Afkoma síðasta árs litaðist hins vegar meðal annars af sölu óvirkra innviða fyrir tæplega 7 milljarða króna til Digital Bridge Group. Bókfært verð eignanna sem voru seldar var 401 milljónir króna og söluhagnaður því rúmir 6,5 milljarðar. Hluta af söluhagnaðinum var hins vegar frestað og því ekki bókfærður fyrir árið 2021.

Tekjur af reglulegri starfsemi Sýnar námu tæplega 22 milljörðum króna í fyrra og hækkuðu um 3,9 prósent milli ára. Aðlöguð EBITDA var 6,3 milljarðar og hækkaði um 693 milljónir frá fyrra ári.

Eftir sölu á óvirkum innviðum Sýnar greiddi félagið upp tvo milljarða króna af langtímalánum við Landsbankann fyrir áramót og einum milljarði var varið til lækkunar á öðrum vaxtaberandi skuldum. Þá réðst Sýn í endurkaupum á eigin bréfum sem jafngilti um 10 prósentum af hlutafé félagsins.

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir

Sýn hagnaðist um tvo milljarða á seinasta ári

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn hf. hagnaðist um 2,10 milljarða króna á seinasta ári samanborið við 405 milljóna króna tap árið 2020. Innifalið í hagnaði ársins 2021 er hagnaður af sölu óvirkra innviða en bókfærður söluhagnaður að frádregnum kostnaði við söluna var 2,55 milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×