Erlent

Macron eykur forskot sitt á Le Pen

Bjarki Sigurðsson skrifar
Emmanuel Macron er sitjandi forseti Frakklands.
Emmanuel Macron er sitjandi forseti Frakklands. Francois Mori/AP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, virðist vera að stinga Marine Le Pen, mótframbjóðanda hans í forsetakosningunum, af samkvæmt könnunum. Frakkar kjósa á milli þeirra á sunnudaginn næstkomandi.

Macron og Le Pen voru efst í fyrri umferð kosninganna og þar sem enginn fékk afgerandi meirihluta verður kosið aftur á milli þeirra tveggja. Macron hlaut 27,8% atkvæða en Le Pen 23,1%. Stærsta verkefni þeirra verður að fá atkvæði frá stuðningsmönnum Jean-Luc Mélenchon sem var þriðji í fyrri umferðinni með 22% atkvæða. Hann hefur hvatt stuðningsmenn sína til að kjósa Macron.

Samkvæmt könnun frá Ipsos er Macron með 57,5% fylgi gegn 42,5% fylgi Le Pen. Vinsældir forsetans hafa dvínað upp á síðkastið en hann virðist nú vera kominn í stórsókn.

Macron er formaður Le République en Marche og er frjálslyndur Evrópusinni. Le Pen er formaður Rassemblement National og er á móti innflytjendum og vill ganga úr Evrópusambandinu.

Macron og Le Pen mættust einnig í seinni umferð kosninganna árið 2017 og sigraði Macron þá með 66% atkvæða gegn 34% Le Pen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×