Laun og launatengd gjöld í A-hluta borgarinnar, sem er að öllu leyti fjármagnaður með skatttekjum, námu tæplega 86 milljörðum króna á síðasta ári og hækkuðu um 12,5 prósent milli ára. Á sama tímabili jukust rekstrartekjur borgarinnar um 10,5 prósent, og þar af skatttekjur um 7,5 prósent.
Kostnaður vegna launa var 4,8 milljörðum króna yfir fjárheimildum en í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, sem fylgdi með ársreikningi borgarinnar, voru ástæðurnar sagðar vera „Covid-19 tengdur kostnaður, innleiðingar á betri vinnutíma og aukin eftirspurn eftir velferðarþjónustu.“
Launahlutfallið hefur hækkað samfellt frá árinu 2016 þegar það nam 51 prósenti. Fyrr í vetur greindi Innherji frá því að stöðugildum hjá sex stærstu sveitarfélögum landsins hefði fjölgaði um nærri 8 prósent á milli áranna 2019 og 2021 og hlutfallslega var aukningin mest hjá Reykjavíkurborg sem fjölgaði stöðugildum um 13,5 prósentum á tímabilinu.
Haraldur L. Haraldsson, hjá HLH Ráðgjöf, sem hefur áratuga reynslu af ráðgjöf á stjórnskipulagi, fjármálum og rekstri sveitarfélaga, sagði nýlega í viðtali við Innherja að það gæti stefnt í óefni ef sveitarfélög kæmu ekki böndum á hækkun launagjalda og fjölgun stöðugilda.
„Ég held að það sé alveg ljóst að sveitarfélög geta ekki haldið áfram á sömu braut,“ sagði Haraldur. Hann benti á að kostnaður vegna launa, launatengdra gjalda og breytinga á lífeyrisskuldbindingum hefði numið 53 prósentum af tekjum sveitarfélaga árið 2010 en árið 2020 var hlutfallið komið upp í 60 prósent að meðaltali hjá A-hluta sveitarfélaga.
Þá benti hann jafnframt á að dæmi væru um sveitarfélög sem væru nálægt því að vera með neikvætt veltufé frá rekstri. „Það hefur ekki sést í 10 til 15 ár og er mjög alvarlegt mál.“
Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum Reykjavíkurborgar hefur dregist umtalsvert saman á síðustu árum. Í fyrra var hlutfallið 0,3 prósent samanborið við 4 prósent árið 2020 og 10,1 prósent árið 2019.
Veltufé frá rekstri gefur vísbendingu um hversu hátt hlutfall af rekstrartekjum er til ráðstöfunar fyrir afborganir skulda og til fjárfestinga. Því hærra sem þetta hlutfall er því meiri er geta borgarinnar til að vaxtar og viðhalds eigna.
Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 23,4 milljarða króna á árinu 2021 og var niðurstaða beggja rekstrarhluta borgarinnar töluvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að betri niðurstaða skýrist einkum af matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum og áhrifum af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur.