Skoðun

Akkúrat svona lítur auð­valdið út

Gunnar Smári Egilsson skrifar

Almenningur fékk áfall þegar hann sá hverjum Bjarni Benediktsson og bankasýslan hafði selt hlut almennings í Íslandsbanka. Þarna var saman kominn ófrýnilegur hópur manna með æði vafasama fortíð. Þarna var fólkið sem hafði sölsað undir sig auðlindum þjóðarinnar, mennirnir sem skrælt höfðu bankanna að innan fyrir Hrun, fólkið sem hafði fengið stjarnfræðilegar fjárhæðir afskrifaðar, menn sem höfðu sætt rannsókn fyrir fjárglæpi og verið dæmdir, menn sem voru grunaðir skattsvikarar, fjárglæfra- og kynferðisbrotamenn.

Hvernig var hægt að safna saman svona liði til að selja því eignir almennings með feitum afslætti? Hverjum datt í hug að kalla þetta fólk fagfjárfesta? Í augum almennings voru þetta fagmenn í fjárglæpum, atvinnumenn í að svína á almenningi og svíkja þjóðina? Það sem í daglegu tali er kallað skítapakk.

Tja, ástæða þess að svona fólk er kallað fagfjárfestar er að akkúrat svona er íslenska auðvaldið.

Við hverju bjóst fólk? Auðvaldið er ekki Þorvaldur í Síld & fisk sem mætti í hvíta sloppnum til að fagna því að fá að borga meiri skatt en nokkur annar. Auðvaldið er meira og minna lið sem hefur auðgast af því að svíkja annað fólk, arðræna launafólk og koma sér hjá því að borga skatta. Auðvaldið er aldrei besta fólk hverjar þjóðar. Og það er sannarlega ekki svo á Íslandi.

En skoðum auðvaldið. Skoðum stærstu hluthafana í íslensku kauphöllinni.

Hrunverjarnir hafa tekið yfir

Einkenni íslensku kauphallarinnar er fyrirferð lífeyrissjóðanna. Þeir eiga meira en helming hlutafjár í vel flestum skráðum félögum. Þar sem sjóðirnir eru að mestu passífir í þessum félögum ná einkaaðilar að stjórna þeim í krafti lítils eignarhluta.

Við skulum því skoða hverjir eru stærstu einkahluthafana í þeim tuttugu fyrirtækjum sem eru í kauphöllinni. Kannski gefur það okkur mynd af íslenska auðvaldinu.

Samherji, sem stýrt er af Þorsteini Má Baldurssyni forstjóra, er stærsti einkahluthafinn í Eimskip, Síldarvinnslunni, Högum og í Sjóvá í gegnum Síldarvinnsluna. Þorsteinn Már var bankaráðsformaður Glitnis þegar sá banki hrundi yfir þjóðina.

Helsti eigandi Glitnis var FL-Group en nokkrir af fyrrum stjórnendur og hluthöfum þess félags eru nú aðaleigendur Stoða, sem stýrt er af Jóni Sigurðssyni, fyrrum forstjóra FL-Group. Stoðir eru stærstu einkahluthafarnir í Arionbanka á eftir tveimur erlendum vogunarsjóðum og eru líka stærstu hluthafarnir í Kviku-banka og Símanum.

Pálmi Haraldsson í Fons var stór hluthafi í FL-Group. Hann er nú stærsti einkahluthafinn í Icelandair á eftir bandaríska vogunarsjóðnum Bain Capital.

Viðskiptafélagi Pálma frá bóluárunum, Jón Ásgeir Jóhannesson, stýrir nú Skel (áður Skeljungi) í krafti eignar eiginkonu sinnar, Ingibjargar Pálmadóttur og viðskiptafélaga frá Hrunárunum ,eins og Sigurði Bollasyni.

Bjarni Ármannsson var einn helsti arkitekt útþenslu bankanna fyrir Hrun og lengi vel bankastjóri Glitnis. Hann er nú stærsti einkahluthafinn í VÍS og Iceland Seafood.

Í því síðarnefnda er annar Hrunverji, Jakob Valgeir Flosason, næstum jafn stór. Jakob Valgeir fékk gríðarfjármuni afskrifaða eftir Hrun, skuldir sem hann hafði safnað upp til að kaupa hlutafé í FL-Group og Glitni. Jakob Valgeir er stærsti einkahluthafinn í Íslandsbanka á eftir tveimur útlendum vogunarsjóðum.

Þá erum við búin að telja upp tólf af tuttugu félögum í kauphöllinni og við erum ekki búin með Hrunverjana.

Stærsti einkahluthafinn í Origo er félag í eigu Ágústs og Lýðs Guð­­munds­­sonar, Bakkavarabræðra, og Sigurðar Valtýssonar sem var framkvæmdastjóri Exista, fjárfestingarfélags þeirra bræðra.

Fólk með minni tengsl við Hrunið

Stærsti einkahluthafinn í Festi er félag í eigu Hreggviðs Jónssonar, eins þeirra sem beitti Vítalíu Lazarevu kynferðislegu ofbeldi í heitum potti á liðnu hausti.

Brimgarðar eru félag í eigu systkinanna í Matfugli, en auð þeirra má rekja til innflutningsverndar. Styrkir til kúa- og sauðfjárbænda er aðeins hluti opinbers stuðnings til landbúnaðar, og hann dreifist á marga. Hinn hlutinn er innflutningshöft og ávinningurinn af þeim rennur fyrst og fremst til fáeinna fyrirtækja í eggja- kjúklinga- og svínarækt. Brimgarður og dótturfyrirtæki hans eru þar stærst, fá stærsta skerfinn af hagnum af verndinni. Brimgarður er nú stærsti einkahluthafinn í öllum þremur fasteignafélögunum í kauphöllinni; Eik, Reginn og Reitum.

Guðmundur Kristjánsson, kallaður vinalausi, er stærsti hluthafinn í Brim. Honum hefur tekist að ná undir viðskiptablokk sína rúmlega 16% af kvótanum á Íslandsmiðum.

Stærstu eigendur Marel eru Þórður Magnússon og fjölskylda í Eyri. Sonur hans, Árni Oddur, á þau kunnu ummæli frá þeim tíma að hann var starfsmaður Búnaðarbankans að það væri meiri áhætta að kaupa ekki bréf í deCode en að kaupa bréfin. Upphaf auðs Eyris má rekja tileinkavæðingar Búnaðarbankans og bankabólunnar sem fylgdi. Þann auð notuðu þeir feðgar til að fjárfesta í Marel og Össuri sem reyndust traustari fjárfestingar en bankarnir sem hrundu.

Síðasta félagið í kauphöllinni er Sýn, en þar er stærsti einkahluthafinn Heiðar Guðjónsson, tengdasonar Björn Bjarnasonar, fyrrum ráðherra. Næstu hluthafar í þessu félagi eru Kvika og Arion, hvar Stoðir eru stærstu hluthafar, og félag í eigu Róbert Wessman.

Þetta er auðvaldið

Svona lítur íslenska auðvaldið út. Nákvæmlega eins og nafnalistinn yfir kaupendur í Íslandsbanka. Sá listi er góð mynd af auðvaldinu eins og það er í raun. Ef listinn hneykslar þig þá er ástæðan sú að þú hefur andstyggð á auðvaldinu. Þú færð hroll þegar þú horfist í augu við það.

Við skulum því ekki blekkja okkur. Ef hugmyndin var að koma Íslandsbanka úr almannaeigu og færa bankann auðvaldinu þá hefði þetta alltaf orðið niðurstaðan. Valkostirnir eru aðeins tveir. Annað hvort á almenningur bankann áfram eða bankinn er seldur svona liði.

Helgimynd auðvaldsins af sjálfu sér er lífseig og hefur haft mótandi áhrif á afstöðu margra til samfélagsmála. Fólk trúir því jafnvel að auðvaldið sé drifkraftur samfélagsins, búi flest til, sé skapandi og gefandi, láti gott af sér leiða. Þetta er fjarri sanni. Auðvaldið er grimmt og miskunnarlaus, sjálfselskt og svikult, eyrir engu og er tilbúið að stela, ljúga og svíkja ef það eykur við auð þess.

Og þetta vitum við öll. Þau sem voru ekki búin að fatta þetta áður en Íslandsbanki var seldur hrukku upp við vondan draum þegar ódáinsþefurinn af kaupendalistanum lagðist yfir þjóðlífið.

Vonandi sofnar fólk ekki aftur. Ef við ætlum ekki að láta svona lið ná undir sig öllum verðmætum í samfélaginu verðum við að berjast. Góð leið til að hita upp er að mæta á mótmælin á Austurvelli á laugardaginn klukkan tvö eða á systurmótmæli á Ráðhústorginu á sama tíma.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×