Innlent

Þor­gerður Lauf­ey vill á­fram leiða Fé­lag grunn­skóla­kennara

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þorgerður Laufey sækist eftir endurkjöri til formannsembættis Félags grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey sækist eftir endurkjöri til formannsembættis Félags grunnskólakennara. Vísir/Vilhelm/Aðsend

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, mun áfram gefa kost á sér til að gegna embætti formanns. Hún var kjörin formaður félagsins árið 2018 en formannskosning fer fram að nýju í byrjun maí. 

Félag grunnskólakennara er fjölmennasta aðildarfélag að Kennarasambandi Íslands með um 4.600 félagsmenn.

Þorgerður Laufey hefur starfað sem kennari í tæp 30 ár og kennt á öllum stigum grunnskólans. Áður en hún var kjörin formaður Félags grunnskólakennara gegndi hún margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hönd kennara. 

Hún var meðal annars formaður Kennarafélags Reykjavíkur 2005-2011 og fulltrúi reykvískra kennara í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur í sjö ár.

„Fái ég til þess áframhaldandi umboð mun ég, hér eftir sem hingað til, leggja mig alla fram um að vera ötull talsmaður kennara og skólastarfs í samvinnu og samstarfi við hagaðila, ríki og sveitarfélög. 

Það eru forréttindi að fá að vinna með svo öflugum hópi kjörinna fulltrúa í félagsstarfinu, á sviði skóla- og kjaramála. Ég er full tilhlökkunar að leiða þennan hóp áfram í mikilvægum störfum fyrir grunnskólakennara verði mér treyst fyrir keflinu áfram,“ segir í tilkynningu frá Þorgerði Laufeyju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×