Áhugi á íslenskum þjóðbúningum er alltaf að aukast og aukast enda sífellt fleiri, sem klæða sig upp í slíka búning á hátíðisdögum, ekki síst á 17. júní. Sigríður Karen Samúelsdóttir, alltaf kölluð Sigga Karen, hefur saumað alls konar búninga síðustu ár og meira að segja haldið námskeið í þjóðbúningasaumi á Akranesi. Og að sjálfsögðu er hún búin að sauma herrabúning á bóndann sinn, Guðjón Sólmundsson, sem er með 44 hnappagötum á jakka og vesti. Húfan er líka á sínum stað.
„Þetta tekur tíma, bara að sauma í þetta pils, sem ég er í tekur rúmar sex hundruð vinnustundir. Sumt tekur styttri tíma en allt kostar þetta vinnu,“ segir Sigga Karen.
Og þú hefur mikla þolinmæði í þetta?
„Já, ætli megi ekki að segja að fólkið mitt hefur líka hellings þolinmæði því ég hef tekið mér tíma til að gera þetta og ég fékk alltaf frið í tvo tíma á dag á meðan ég var að sauma. Þetta gefur mér fyrst og fremst gleði og að læra gamalt handverk því allt er þetta gamalt handverk, sem er verið að vinna upp,“ segir hún.

En eigum við að huga meira af gamla handverkinu að hennar mati?
„Já, að sjálfsögðu, þetta er það sem allir eiga að læra. Ef við hugsum okkur konurnar sem voru að sauma með lýsistýru, þær voru ekki með Led ljósin eins og við erum með í dag, og þessi vinna er óskapleg nákvæmnisvinna,“ segir Sigga Karen.
Fjölskylda Siggu Karenar fer alltaf í búningana á 17. júní og sjálf fer hún í búning í fermingum og öðrum hátíðlegum tækifærum. En er hún hætt að suma?
„Nei, ég á einn eftir, það er kirtilinn,“ segir hún hlægjandi.
