Sport

Alyssa Nakken heldur á­fram að brjóta blað í sögu hafna­boltans

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alyssa Nakken er ein af aðstoðarþjálfurum San Francisco Giants.
Alyssa Nakken er ein af aðstoðarþjálfurum San Francisco Giants. Todd Kirkland/Getty Images

Það er ljóst að hin 31 árs gamla Alyssa Nakken hefur skráð sig í sögubækur MLB-deildarinnar í hafnabolta. Hún er ekki aðeins fyrsta konan til að hafa verið ráðin í fullt starf sem þjálfari heldur er hún einnig fyrsta konan til að stíga inn á völlinn og þjálfa á meðan leik stendur.

Í janúar 2020 var Nakken ráðin af San Francisco Giants. Varð hún þá fyrsti kvenkyns þjálfarinn í fullu starfi í sögu deildarinnar. Á dögunum skráði hún sig svo í sögubækurnar á nýjan leik. 

Snemma leiks gegn San Diego Padres lét Antoan Richardson, einn af þjálfurum Giants, reka sig upp í stúku. Kom það í hlut Nakken að stíga inn og aðstoða kylfinga (e. hitters) liðsins það sem eftir lifði leiks. Þar með varð hún fyrsta konan til að þjálfa innan vallar í MLB-deildinni á meðan leik stendur.

Leikurinn vannst svo örugglega, 13-2 lokatölur.

„Það var aldrei spurning að stíga upp og stjórna liðinu út leikinn, það er vinnan mín. Ég hef aldrei fundið fyrir skort á stuðningi frá félaginu. Hópurinn sem við höfum hér er einstakur,“ sagði Nakken eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×