Fótbolti

Kann vel við sig hjá Bayern: „Hjálpar mjög mikið að hafa Karólínu og Glódísi þarna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir er komin til eins besta liðs heims þrátt fyrir að vera aðeins átján ára.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir er komin til eins besta liðs heims þrátt fyrir að vera aðeins átján ára. stöð 2 sport

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, markvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, kveðst ánægð með lífið hjá Bayern München þar sem hún er í láni frá Everton á Englandi.

Cecilía lék sinn fyrsta leik fyrir Bayern þegar hún kom inn á sem varamaður í 1-9 sigri á Jena í þýsku bikarkeppninni síðasta dag febrúarmánaðar. Næsti leikur hennar kom hins vegar í 6-0 tapi fyrir Wolfsburg í toppslag í þýsku úrvalsdeildinni um þarsíðustu helgi. Cecilía kom þá inn á í hálfleik þegar staðan var 3-0, Wolfsburg í vil.

„Mér fannst það geggjað, að fá að koma inn á í svona stórleik,“ sagði Cecilía aðspurð hvernig það hafi verið að koma inn í svona erfiðri stöðu.

Klippa: Viðtal við Cecilíu Rán

„Auðvitað voru úrslitin ótrúlega léleg fyrir okkur en við fáum annað tækifæri á sunnudaginn,“ sagði Cecilía og vísaði til leiks Bayern og Wolfsburg í þýsku bikarkeppninni 17. apríl.

Hjá Bayern spilar Cecilía með tveimur stöllum sínum úr landsliðinu, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Glódísi Perlu Viggósdóttur.

„Mér hefur liðið mjög vel í Bayern. Allar stelpurnar og starfsfólkið hafa tekið rosalega vel á móti mér og það hjálpar mjög mikið að hafa Karólínu og Glódísi þarna,“ sagði Cecilía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×