Kolbrún, sem notar listamannanafnið Kusk, hafnaði í fyrsta sæti. Í öðru sæti hafnaði Gunnar Karls og Sameheads lentu í þriðja sæti. Hljómsveit fólksins var Bí Bí & Joð. Auk þess að sigra keppnina fékk Kolbrún sérstök verðlaun fyrir íslenskan texta og var valin rafheili keppninnar.
Svanhildur Guðný Hjördísardóttir, söngkona Bí Bí & Joð, fékk verðlaun fyrir söng. Friðrik Örn Sigþórsson í Project Reykjavík fékk verðlaun fyrir bassaleik og félagi hans í sveitinni Magnús Þór Sveinsson fékk verðlaun fyrir hljómborðsleik.
Fyrir gítarleik fékk Oliver Devaney í Samheads sérstök verðlaun og Mikael Magnússon í Merkúr fékk verðlaun fyrir trommuleik.
Fram kemur í tilkynningu frá Músíktilraunum að úrslitakvöldið hafi verið tileinkað boðskapi friðar og samkenndar. Allir séu því fegnir að samfélagið sé komið aftur í frekar eðlilegt horf eftir heimsfaraldur og á undankvöldum Músíktilrauna í ár hafi ekki skort hæfileika og sköpunarkraft hjá ungu tónlistarfólki sem hafi sýnt fjölbreytta takta og mikla hæfileika í tónlistarflutningi sínum.
Eftir stórkostlegt úrslitakvöld þar sem tíu atriði voru flutt hafi niðurstaða dómnefndar og símakosningar verið tilkynnt. Glæsileg verðlaun voru veitt: Hljóðverstímar, úttektir í hljóðfæra- og tónlistarverslunum, spilamennska á tónlistarhátíðum hérlendis og erlendis þar sem sigurvegarar munu fljúga á vit ævintýranna með Icelandair til að spila á tónlistarhátíðinni Westerpop í Hollandi. Þá fá allir sem komust í úrslit fræðslupakka Hitakassans sem undirbýr ungt tónlsitarfólk fyrir atvinnumensku í tónlist.