Spánar- og Evrópumeistarar Barcelona áttu nokkuð erfitt með að klára Real Madríd í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það var hins vegar vitað að liðið yrði vel stutt á heimavelli í síðari leiknum og var fyrir löngu uppselt.
Það fór svo að Barcelona vann magnaðan 5-2 sigur fyrir framan fullt hús og þar með viðureignina 8-3 samanlagt. Slegið var heimsmet en aldrei hafa fleiri mætt á leik í kvennaknattspyrnu áður.
Putellas, sem skoraði eitt af fimm mörkum Barcelona í leiknum, átti erfitt með að lýsa tilfinningum sínum er hún ræddi við fjölmiðla að leik loknum.
„Ég á engin orð. Þetta var töfrum líkast. Leikurinn endaði og stuðningsfólkið vildi ekki fara. Þetta var magnað.“
Barcelona er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar Evrópu þar sem það mætir annað hvort Arsenal eða Wolfsburg. Það kemur í ljós hvort liðið fer áfram en liðin gerðu 1-1 jafntefli á Emirates-vellinum í Lundúnum í síðustu viku.