Körfubolti

Lovísa Hennings: Ég bíð eftir því að fá fleiri lið í efstu deild

Atli Arason skrifar
Lovísa Björt Henningsdóttir fagnar bikarmeistaratitli með liðsfélögum sínum í Haukum.
Lovísa Björt Henningsdóttir fagnar bikarmeistaratitli með liðsfélögum sínum í Haukum. Vísir/Bára Dröfn

Lovísa Björt Henningsdóttir, leikmaður Hauka, var til tals í hlaðvarpsþáttinum Undir Körfunni sem birtist núna í morgun. Þar ræðir Lovísa meðal annars þá hugmynd að fjölga liðum í Subway-deild kvenna.

„Bara vinsamlegast sem fyrst, helst bara strax á næsta ári. Deildin hefur aldrei verið eins jöfn og ég hef aldrei skemmt mér eins mikið að spila í þessari deild. Þetta er einmitt ekki bara topp 2 eða 3 liðin og rest, það geta allir unnið alla núna,“ sagði Lovísa Björt.

Njarðvíkingar eru nýliðar í deildinni í ár og komust upp þrátt fyrir að tapa í úrslitaleiknum gegn Grindavík í umspili um laust sæti í efstu deild á síðasta tímabili. Njarðvík gerði sér lítið fyrir og vann sér þátttökurétt í úrslitakeppni efstu deildar í ár. Fjölnir var nýliði í efstu deild á síðasta ári en Grafarvogsstúlkur eru í dag nýkrýndir deildarmeistarar efstu deildar. Þessi dæmi sýna sennilega svart á hvítu að munurinn á milli efstu tveggja deilda er kannski ekki svo mikill, eins lengi og metnaður og vilji er til staðar.

„Ég bíð eftir því að fá fleiri lið í deildina. Við vorum með átta í upphafi en urðu svo sjö þegar eitt liðið dróg sig úr keppni og það er bara alltof lítið. Þetta er kannski bara draumur hjá mér en ég vil eiginlega að núna strax á næsta ári komi bara auka lið upp.“

Skallagrímur dróg lið sitt úr keppni á miðju tímabili eftir erfiða byrjun hjá liðinu. Það þótti nokkuð ljóst snemma að Borgnesingar myndu vera í harðri fallbaráttu við önnur lið sem höfðu fjárfest mikið í sínum leikmannahópum. Eftir stóðu sjö lið og ekkert þeirra er að fara að falla úr deildinni í ár.

„Skallagrímur hefði kannski hugsað sig tvisvar um ef það hefði verið eitthvað annað lið þarna í baráttunni með þeim en þetta leit ekki vel út fyrir þær í byrjun tímabils þar sem það vantaði marga leikmenn í liðið,“ svaraði Lovísa aðspurð af því hvort raunir Skallagríms gætu verið öðruvísi ef fleiri lið væru með þátttökurétt í efstu deild.

Með fleiri liðum fá fleiri leikmenn leiki og reynslu af því að spila við þær bestu í efstu deild. Í Subway-deild kvenna eiga að vera 8 lið og fjórar umferðir leiknar. Í Subway-deild karla eru 12 lið og tvær umferðir leiknar. Það er hægt að fara í allskonar vangaveltur um það hvernig hægt væri að hafa sama leikjafjölda en þó með fleiri liðum.

„Það væri til dæmis hægt að hafa níu eða tíu lið í deildinni og þrjár umferðir,“ sagði Lovísa Björt Henningsdóttir, leikmaður Hauka, bjartsýn fyrir framtíðinni. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×