Körfubolti

Westbrook reifst við blaðamann eftir stórtap Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook var stigahæstur hjá Los Angeles Lakers í leiknum gegn Dallas Mavericks með 25 stig.
Russell Westbrook var stigahæstur hjá Los Angeles Lakers í leiknum gegn Dallas Mavericks með 25 stig. getty/Ron Jenkins

Los Angeles Lakers steinlá fyrir Dallas Mavericks í NBA-deildinni í nótt og er ekki lengur í umspilssæti um sæti í úrslitakeppninni. Eftir leikinn reifst Russell Westbrook við blaðamann.

Lakers átti aldrei möguleika gegn Dallas í nótt og tapaði, 128-110. Dallas skoraði 82 stig í fyrri hálfleik sem er með mesta sem Lakers hefur fengið á sig eftir að félagið flutti frá Minneapolis til Los Angeles 1960.

Westbrook, sem skoraði 25 stig í nótt, varð pirraður á spurningum blaðamanns Los Angeles Times, Brad Turner, eftir leikinn í Dallas. Turner spurði Westbrook hverju Lakers þyrfti að breyta áður en deildarkeppninni lyki.

„Engu, maður. Engu,“ sagði Westbrook stuttur í spunann. Hann benti á að Lakers ætti enn leiki eftir eins og hin liðin sem eru í baráttunni um að komast í umspilið. Westbrook spurði svo Turner hverju hann myndi breyta hjá Lakers og hann svaraði að liðið yrði að fara að vinna leiki.

„Það er flott. Ertu með svarið til að fara að vinna? Ertu með svarið til að komast á sigurbraut?“ sagði Westbrook. Leikstjórnandinn var þó nokkuð snöggur að jafna sig eftir fundinn og þeir Turner skildu sáttir.

Lakers hefur tapað þremur leikjum í röð og hefur aðeins unnið fjóra af sautján leikjum sínum eftir Stjörnuleikinn. Lakers hefur unnið 31 leik í vetur, tapað 44 leikjum og er í 11. sæti Vesturdeildarinnar. Liðin í 6.-10. sæti fara í umspil um tvö laus sæti í úrslitakeppninni.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA

Tengdar fréttir

Varði sigurinn með tilþrifum

Gríska goðið Giannis Antetokounmpo fór á kostum í toppslag austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta. Hann varði með tilþrifum skot þegar innan við tvær sekúndur voru eftir og tryggði Milwaukee Bucks 118-116 útisigur gegn Philadelphia 76ers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×