Bankasýsla ríkisins hefur síðan í gær verið að ganga frá uppgjöri á útboði stofnunarinnar á tæplega fjórðungs hlut í Íslandsbanka í síðustu viku. Fram hefur komið að mikil umfram eftirspurn hafi verið eftir hlutum í bankanum.
Brú lífeyrissjóður fékk um 60% skerðingu af þeim fjárhæðum sem sjóðurinn bauð í og keypti samtals fyrir um þrjá milljarða króna. Lífeyrissjóður bankamanna tók líka þátt í útboðinu og fékk svipaða skerðingu og keypti fyrir um 140 milljónir króna. SL lífeyrissjóður fékk svipaða skerðingu en keypti fyrir tæpan hálfan milljarð og á eftir útboðið um 0,7 prósent í bankanum.
Þá keypti Frjálsi lífeyrissjóðurinn fyrir um 1,6 milljarða króna og fékk minna en hann bað um. Loks fékk Lífeyrissjóður verslunarmanna úthlutað fyrir 2,1 milljarð króna. Gildi lífeyrissjóður keypti fyrir 3,5 milljarða króna og hefur bætt við eignarhlut sinn. Þetta kemur fram í svörum þessara lífeyrissjóða við fyrirspurnum fréttastofu.
Sex lífeyrissjóðir eiga samanlagt fimmtungshlut
Sex lífeyrissjóðir eiga samkvæmt hluthafalista Íslandsbanka nú um fimmtungshlut samanlagt í Íslandsbanka. Hafa flestir verið að bæta við sig í bankanum eftir útboðið en mikil viðskipti hafa verið með bréf í Íslandsbanka síðustu daga.
Arion banki keypti í útboðinu og fer nú með um 1,72 prósent í Íslandsbanka, Landsbankinn fer eftir útboðið með 1,55 prósenta hlut og Íslandsbanki gegnum Íslandssjóði fer með um 1,55 prósenta hlut. Samanlagt er hlutur viðskiptabankanna því tæplega fimm prósent. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptabönkunum voru Arion banki og Landsbankinn ekki sjálfir að fjárfesta í Íslandsbanka heldur fyrst og fremst fyrir hönd viðskiptavina sinna.
Hver hlutur var seldur í útboðinu á 117 krónur en farið var eftir svokallaðri tilboðsleið þar sem svokölluðum hæfum fjárfestum er boðinn hlutur af þeim aðilum sem sjá um útboðið. Fjármálastofnanir ákveða svo hverjir eru hæfir til að kaupa í slíku útboði.