Þrír sögulegir leiðtogafundir vestrænna ríkja fóru fram í Brussel í gær þegar leiðtogar Atlantshafsbandalagsins, sjö helstu iðnríkja heims og Evrópusambandsins komu saman til að stilla saman strengi sína vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Joe Biden Bandaríkjaforseti sat alla fundina þar sem ákveðið var að auka herstyrk NATO í aðildarríkjunum í austur Evrópu, auka hernaðarlegan og fjárhagslegan stuðning við Úkraínu og herða á refsiaðgerðum gegn Rússlandi.

Sergey Lavrov utanríkisráðherra segir ljóst að Vesturlönd hafi nú lýst yfir allsherjarstríði að hætti nasista Þýskalands gegn Rússlandi og vísaði þar til Jósefs Göbbels áróðursmeistara Hitlers.
„Og það er ekki farið í grafgötur með markmiðin, þau hafa verið opinberuð; að eyða, brjóta niður, yfirtaka og kyrkja rússneskan efnahag og Rússland í heild sinni,“ sagði Lavrov í dag.
Biden og Ursula von der Leyen forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins kynntu niðurstöður funda sinna í gær á sameiginlegum fréttamannafundi í morgun. Biden sagði Vladimir Putin Rússlandsforseta hafa nýtt aðgang aðorkulindum til að kúga og ráðskast með nágrannaríki. Hann notaði síðan hagnaðinn af orkusölunni til að fjármagna hernaðarvél sína.

„Bandaríkin og Evrópusambandið ætla að vinna saman að því að gera Evrópu algerlega óháða jarðgasi og hámarka framboð og notkun á endurnýjanlegri orku,“ sagði Biden. Bandaríkin muni strax á þessu ári tryggja ríkjum Evrópusambandsins 15 milljarða lítra af fljótandi gasi til viðbótar og 50 milljarða lítra árlega eftir það fram til ársins 2030.
Von der Leyen segir það losa Evrópu undan kaupum á um einum þriðja af því gasi sem kæmi frá Rússlandi í dag. Evrópa og Bandaríkin muni standa saman í gegnum stríðið í Úkraínu og efla framleiðslu á endurnýjanlegri orku.
„Þetta verður algerlega misheppnað stríð fyrir Putin. Samvinna okkar í refsiaðgerðum gegn Rússlandi hefur verið einstök og söguleg. Aðgerðirnar hafa nú þegar djúp áhrif inn í rússneska kerfið og eru að þurrka upp möguleika Putins til að fjármagna stríðsrekstur sinn,“ sagði von der Leyen. Þá væru Bandaríkin og Evrópa að auka samstarf sitt á fjölmörgum sviðum.
Joe Biden er nú á leið til Póllands þar sem hann mun ræða við pólska ráðmenn um eflingu sameiginlegra varna, hitta flóttafólk og heilsa upp á bandaríska hermenn.