Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen unnu öruggan útisigur gegn Daníel Þór Ingasyni og félögum í HBW Balingen-Weilstetten.
Nokkuð jafnræði var með liðunum stærstan hluta fyrri hálfleiksins, en stuttu fyrir hlé tóku Ljónin öll völd og fóru að lokum með níu marka sigur, 31-22.
Ýmir og félagar sitja nú í tíunda sæti deildarinnar með 21 stig eftir 23 leiki, en heimamenn í Balingen sitja á botninum með aðeins níu stig.
Was ein überragender Auftritt unserer Löwen! 👊💥 Wir nehmen die zwei Punkte mit nach Baden! 🙌 #rnl #rnloewen #hbl #handball #HBWRNL pic.twitter.com/1xnMLQA9iL
— Rhein-Neckar Löwen (@RNLoewen) March 24, 2022
Bjarki Már Elísson þurfti að sætta sig við tap gegn sínum gömlu félögum í kvöld þegar Lemgo laut í lægra haldi fyrir Füchse Berlin, 29-24.
Bjarki skoraði fimm mörk fyrir Lemgo, en liðið situr í níunda sæti deildarinnar með 24 stig, 12 stigum minna en Füchse Berlin.
Þá unnu Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen góðan tveggja marka útisigur gegn Erlangen, 25-23, en Viggó Kristjánsson, Andri Már Rúnarsson og félagar þeirra í Stuttgart máttu þola tíu marka tap gegn Hannover-Burgdorf, 33-23.