Ívar hefur starfað hjá Birtingahúsinu frá árinu 2005, fyrst sem birtingafulltrúi, síðar birtingastjóri og hefur undanfarin tvö ár starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Hann útskrifaðist með BS-próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og með MS-gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands árið 2010.
„Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og tækifærinu á að fá að leiða hið öfluga starfsfólk Birtingahússins í áframhaldandi framþróun fyrirtækisins. Hjá Birtingahúsinu starfar öflugur hópur sérfræðinga með viðamikla þekkingu og reynslu í birtinga- og markaðsráðgjöf. Spennandi tímar framundan og mikil tækifæri á að vaxa og dafna” segir Ívar.
„Ívar þekkir Birtingahúsið út og inn og hefur mikla þekkingu og reynslu á markaðnum. Um leið og við þökkum Huga fyrir sín góðu störf þá bjóðum við Ívar velkominn í starf framkvæmdastjóra Birtingahússins og erum fullviss um að fagmennska hans og metnaður mun efla Birtingahúsið enn frekar á komandi árum,” er haft eftir Einari Snorra Magnússyni, stjórnarformanni Birtingahússins.
Birtingahúsið var stofnað árið 2000 og veitir faglega og óháða ráðgjöf um auglýsingabirtingar, markaðssetningu og uppbyggingu auglýsingaherferða. Félagið er í alþjóðlegu samstarfi við Dentsu Aegis Network, sem hefur yfir að ráða einu allra stærsta og öflugasta neti markaðs- og birtingaráðgjafar í heiminum, með starfsemi í yfir 140 mörkuðum. Meðal dótturfélaga DAN eru Carat, Vizeum og iProspect.