Handbolti

Hansen hefur leikið sinn seinasta leik fyrir PSG | Fékk blóðtappa í lungun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikkel Hansen hefur leikið sinn seinasta leik í treyju PSG.
Mikkel Hansen hefur leikið sinn seinasta leik í treyju PSG. Mario Hommes/DeFodi Images via Getty Images

Mikkel Hansen, einn af bestu handboltamönnum heims, hefur leikið sinn seinasta leik fyrir franska stórveldið PSG.

Frá þessu er meðal annars greint á heimasíðu PSG, en Hansen gekkst undir aðgerð í Kaupmannahöfn í seinustu vegna brjóskskemmda í hné. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hansen gengst undir slíka aðgerð, en í þetta skipti fékk kappinn blóðtappa í lungun við aðgerðina.

Upprunalega átti Hansen að vera frá keppni í fjórar til sex vikur eftir aðgerðina, en nú er ljóst að bataferlið verður eitthvað lengra en það. Hansen þarf að vera á blóðþynnandi lyfjum í allt að hálft ár.

Hann mun því ekki geta snúið til baka áður en yfirstandandi tímabili lýkur og hefur því leikið sinn seinasta leik fyrir PSG. Hansen hefur verið hjá félaginu í tíu ár og með því hefur Hansen orðið franskur meistari átta sinnum, bikarmeistari fjórum sinnum og deildarbikarmeistari í þrígang.

Hansen heldur aftur til heimalandsins næsta haust, en hann gengur til liðs við Aron Pálmarsson og félaga í Álaborg fyrir næsta tímabil. Hann mun þó bíða með að hefja störf hjá Álaborgarliðinu þangað til 20. ágúst, en þá eru nákvæmlega tíu ár síðan hann gekk til liðs við PSG. Það mun gera það að verkum að Hansen fær vænan skattaafslátt við flutninginn heim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×