Erlent

Leita að flug­ritum MU5735 í skógi vöxnu fjall­lendi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Brak úr flugvélinni hefur fundist víða í fjalllendinu. Fjölmiðlum hefur verið meinað að fara nær vélinni en að þorpinu Lu, sem er við rætur fjalllendisins.
Brak úr flugvélinni hefur fundist víða í fjalllendinu. Fjölmiðlum hefur verið meinað að fara nær vélinni en að þorpinu Lu, sem er við rætur fjalllendisins. Zhou Hua/AP

Viðbragðsaðilar hafa verið að í um sólarhring við að leita að líkum þeirra sem fórust í flugslysi í suðurhluta Kína í gærmorgun. Óvíst er hvað olli slysinu og er flugritanna enn leitað. 

Boeing 737-800 flugvél kínverska flugfélagsins China Eastern Airlines, flug MU5735, var á leið til hafnarborgarinnar Guangzhou frá Kunming, höfuðborgar héraðsins Yunnan í gærmorgun þegar hún skyndilega hrapaði.  Svo virðist sem hún hafi hrapað um 30 þúsund fet á innan við þremur mínútum og myndbönd, sem fóru í dreifingu um netið, sýndu vélina hrapa nánast lóðrétt niður á jörðina. 

Brak úr vélinni fannst víða dreift um fjallshlíðarnar en eldur kviknaði í braki vélarinnar í gær. Gróðureldar kviknuðu í kjölfarið sem tókst að slökkva skömmu síðar. Fram kemur í frétt Reuters að brunnar leifar seðlaveskja og vegabréfa þeirrra 132 sem voru um borð í vélinni hafi fundist víða í fjallshlíðunum. 

Viðbragðsaðilum reyndist erfitt að komast að braki vélarinnar, sem hrapaði í fjalllendi, en aðeins ein leið er að brakinu, mjór göngustígur og fjöll allt í kring. Þá er miklum rigningum spáð í vikunni sem gætu gert viðbragðsaðilum enn erfiðara fyrir. 

Lögreglan hefur lokað göngustígnum við þorpið Lu, sem er eina leiðin til að komast að brakinu nema úr fjöllun um, og blaðamönnum hefur verið meinaður aðgangur. 

Þetta er fyrsta flugslysið í Kína í tólf ár en það síðasta varð árið 2010 þegar 44 af 96 farþegum innanlandsflugvélar á vegum Henan Airlines fórust. Flugvélin, Embraer E-190, hrapaði við lendingu á Yichun flugvelli. 

Vonir eru bundnar við að flugritarnir finnist og hann leiði í ljós hvað hafi gerst og valdið hrapinu. 

Aðeins eitt ár er liðið síðan flugbanni yfir Boeing 737 Max flugvélum var aflétt alþjóðlega í kjölfar tveggja hryllilegra flugslysa. Tvær flugvélar af 737 Max gerð hröpuðu, annars vegar í Indónesíu og hins vegar í Eþíópíu árin 2018 og 2019 og dóu 346 í slysunum. Í kjölfarið vöknuðu upp spurningar um öryggi vélanna og voru þær settar í flugbann í um 20 mánuði á meðan gerðar voru grundvallabreytingar á hönnun þeirra. 

China Eastern setti 737-800 flugvélar sínar í flugbann í gær en floti félagsins samanstendur af 225 slíkum flugvélum. Önnur kínversk flugfélög hafa ekki gert slíkt hið sama. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×