Innherji

Þörf fyrir skrifstofur hefur ekki minnkað eftir faraldurinn, segir forstjóri Regins

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Reginn keypti hágæðaskrifstofuhúsnæði á Höfðatorgi á árinu 2018. 
Reginn keypti hágæðaskrifstofuhúsnæði á Höfðatorgi á árinu 2018.  VÍSIR/VILHELM

Kórónuveirufaraldurinn hafði ekki marktæk áhrif á eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði eða að minnsta kosti ekki eftir húsnæði sem uppfyllir auknar kröfur fyrirtækja og starfsfólks um gæði. Þetta segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins.

Á meðan fjarvinna vegna samkomutakmarkana var sem mest vöknuðu spurningar um hvort faraldurinn myndi hafa varanleg áhrif á eftirspurn fyrirtækja og stofnana fyrir skrifstofuhúsnæði. En nú þegar tvö ár eru liðin frá því að faraldurinn hófst og samkomutakmarkanir eru að baki er ljóst, að sögn Helga, að þörfin hefur ekki minnkað.

„Á síðustu tveimur árum höfum við ekki orðið vör við að leigutakar vilji minnka við sig eða skila húsnæði þó að vissulega hafi leigutakar sem tengdust ferðaþjónustunni verið í kröggum. Nú er staðan þannig að við eigum ekkert laust skrifstofuhúsnæði, bara alls ekki neitt. Þörfin á skrifstofuhúsnæði hefur ekki minnkað,“ segir Helgi.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins

„Fólk mun ekki halda áfram að vinna heima í stórum stíl. Félagslegi þátturinn dregur fólk aftur á skrifstofuna og auk þess þarf að vera á staðnum og vera þátttakandi í teyminu ef maður vill þróast í starfi.“

Helstu áhrifin sem faraldurinn hefur haft á markaðinn eru að hans sögn þau að fyrirtæki vilja meiri sveigjanleika til að geta lagað stærð skrifstofunnar að umsvifum sínum. „Eins finnum við að það er eftirspurn eftir lausnum eins og skrifstofusetrum.“

Skrifstofuhúsnæði í útleigu til einkafyrirtækja nemur rúmlega 20 prósentum af tekjum og fermetrum í samstæðu Regins. Fasteignafélagið, sem á alls 380 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði, hefur á síðustu árum styrkt skrifstofuhluta eignasafnsins með því að leggja meiri áherslu á háhæðaskrifstofur.

Nú er staðan þannig að við eigum ekkert laust skrifstofuhúsnæði, bara alls ekki neitt.

„Það hefur verið skortur á skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem mætir kröfum nútímans, til dæmis kröfum um góð bílastæði, gott aðgengi, sturtur, hjólageymslur og þess háttar. Og inni í húsnæðinu sjálfu er gerðar mun meiri kröfur um loftgæði, hljóðvist og dagsbirtu svo dæmi séu tekin,“ segir Helgi.

Á síðustu misserum hefur einnig gætt umræðu um hvort að það stefni í offramboð af skrifstofuhúsnæði í miðborg Reykjavíkur. Þegar Landsbankinn flytur í nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn losna í kringum 20 þúsund fermetra í 12 húsum sem bankinn nýtir í dag og aðrir 4.500 fermetrar losna þegar Alþingi flytur skrifstofur sínar úr nokkrum húsum við Austurstræti yfir í nýbyggingu sem á að vera tilbúin í lok árs 2023. Helgi segir að gera þurfi greinarmun á skrifstofuhúsnæði með tilliti til gæða.

„Það hefur verið umræða um að það sé offramboð af skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í ljósi þess að það er að losna gríðarlega mikið af húsnæði í miðbænum. En ég er ekki sammála þeirri ályktun vegna þess að húsnæðið sem er að losna eru áratugagamlar eignir sem standast ekki kröfur nútímans. Þegar kemur að hágæðaskrifstofuhúsnæði er næg eftirspurn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×