Menning

Hefur öðlast styrk, skilning og getu til þess að mæta tilfinningunum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listakonan Júlíanna Ósk Hafberg stendur fyrir sýningunni Feelings served; table for one þar sem hún nálgast tilfinningar sínar óhrædd.
Listakonan Júlíanna Ósk Hafberg stendur fyrir sýningunni Feelings served; table for one þar sem hún nálgast tilfinningar sínar óhrædd. Hrefna Björg/Aðsend

Listakonan Júlíanna Ósk Hafberg opnar sýninguna „Feelings served; table for one“ í dag klukkan 17:00. Sýningin er haldin í Núllinu, listagalleríi neðanjarðar á Bankastræti 0. Undanfarna daga hefur Júlíanna verið í óða önn við að breyta hráu rýminu í undraheim en blaðamaður heyrði í henni hljóðið.

Opnunartímar sýningarinnar.Aðsend

Júlíanna segir sýninguna fjalla um það að setjast niður með tilfinningum sínum og leggja þær allar upp á borðið. „Nánast eins og að maður myndi bjóða einhverjum í mat sem maður þyrfti að ræða um eitthvað mikilvægt við, þá er hér lagt á borð fyrir einn og öllum tilfinningunum boðið að vera með.“

Sú tilfinningaríkasta hingað til

Listaverk Júlíönnu koma í ólíkum formum og mynda í sameiningu þessa tilfinningalegu heild.

„Úr loftinu og yfir matarborðinu hanga fjölmörg tár, skúlptúrar og verk, og eru þau einskonar myndform þess að leyfa tilfinningunum að taka pláss, gefa þeim vægi og hlusta á þær en ekki að bæla þær niður.“

Tárin geta svo sannarlega verið öflug.Júlíanna Ósk Hafberg/Aðsend.

Júlíanna hefur löngum verið þekkt fyrir tilfinningaríka list.

„Tilfinningar og berskjöldun taka stórt pláss í viðfangsefnum og skilaboðum listarinnar minnar og er þessi sýning engin undantekning. 

Það mætti jafnvel segja að þessi sýning sé sú tilfinningaríkasta hingað til.“

Að stíga inn í annan heim

Sýningin ber sem áður segir titilinn „Feelings served; table for one“ og er innsetning í rými með skúlptúrum og verkum hangandi úr loftinu, ásamt tveimur stórum málverkum.

„Ég lagði mikið upp úr því að umbreyta rýminu og búa til eins konar tilfinningu um að maður væri að stíga inn í annan heim, þannig smá töfrar liggja yfir öllu þar sem allt rýmið umlykur þig, þar með verkið og innsetningin líka. 

Þú gengur ekki bara inn í gallerí, þú gengur í raun beint inn í verkið sjálft. 

Mig hefur lengi langað til þess að gera innsetningu í rými og út frá því er ég mjög hrifin af því að búa til heildstæða upplifun og einhverskonar töfrandi heim fyrir áhorfandann. Skilaboðin og tilfinningin af verkinu sjálfu stigmagnast við það finnst mér.“

„Tárin fengu loks sitt sterkasta form“

Þessi listakona takmarkar sig ekki við eitt listform og er óhætt að feta nýjar slóðir. Hún hefur hér áður fyrr til dæmis smíðað sérstaka striga í einstökum formum, málað, hannað skartgripi, unnið með dönsurum og margt fleira.

„Í þessari sýningu er ég aðallega að fást við gler en ég er mikill brasari. Ég elska að læra nýja hluti, kynnast nýjum efniviðum og finna hluti sem ég hef ekki prófað áður og dýfa mér ofan í þá til að skilja, læra og geta. Tár hafa verið sterk táknmynd í mörgu af því sem ég hef gert undanfarin ár og það var eins og tárin fengju loks sitt sterkasta form þegar glerið kom inn í listsköpunina mína,“ segir Júlíanna. 

Óvænt tenging við gamalt ljóð

Listin býr yfir svo ótal mörgum ólíkum miðlum og oft getur verið erfitt að átta sig á því hvað tengist hverju. Tenging við ljóðlist kom óvænt að þessari sýningu en langt inn í sýningarferlið áttaði hún sig á því að innsetningin væri bein tilvitnun í ljóð sem hún sjálf skrifaði árið 2017.

 „Þetta er ljóðið sem mér þykir kannski mest vænt um en það er virkilega langt og lýsir því hvernig ég hafði bælt niður tilfinningar mínar með því að læsa þær inn í myrku herbergi innra með mér, þar sem tárin mín hanga eins og ljósakrónur úr loftinu á strengjum allra þeirra tilfinninga sem ég aldrei þorði að viðurkenna,“ segir Júlíanna og bætir við:

„Ég gekk í gegnum erfiða tíma þegar þetta ljóð var skrifað og var þetta ár mikið umbreytingar ár fyrir mig þegar kemur að því að vinna úr tilfinningum sínum, gömlum sárum og skilja hvernig það hefur áhrif á allt líf mans að bera þau með sér.

Það má því segja að þessi sýning sé áframhald af þessu ljóði þar sem ég hef öðlast styrk, skilning og getu til þess að mæta tilfinningunum, stíga inn í þetta dimma herbergi, leggja á borð og bjóða þeim í mat.“

Listin umbreytingarafl

Tilfinningar og andleg heilsa eru málefni sem hafa lengi verið hugleikin Júlíönnu og hefur hún því fjallað mikið um þau.

„Mér finnst mikilvægt að opna umræðuna, gera þessa hluti sýnilegri og eðlilegri og hjálpa til við að eyða einhverskonar taboo-um sem enn gætu umlykið þessi málefni.

Ég nota þannig mig og listina mína sem eins konar tækifæri til þess og trúi því að við getum verið umbreytingarafl með því að vera fyrirmyndir, berskjalda okkur og tala um hlutina.“

Eins og áður kemur fram hafa tárin verið einhvers konar einkenni fyrir Júlíönnu en hún hefur verið að gera eyrnalokka í tárformi frá árinu 2018.

„Eyrnalokkarnir kallast Tears in my Ears og eru svipuð táknmynd og þessi sýning en tárin í eyrunum eru táknmynd þess að hengja tilfinningar sínar í eyrun fyrir alla til að sjá og fagna fegurðinni og styrknum í berskjölduninni og tilfinningum sínum,“ segir Júlíanna að lokum.

Sýningin opnar í dag, miðvikudag milli klukkan 17-20 og er opin fram á sunnudag, 20. mars. Nánari upplýsingar má finna hér


Tengdar fréttir

„Fötin eiga að passa á okkur en ekki við í fötin“

Myndlistarkonan Júlíanna Ósk Hafberg er lausnamiðuð þegar það kemur að því að endurnýta föt og leggur áherslu á að laga flíkurnar sínar ef eitthvað kemur fyrir þær, frekar en að henda þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×